Saturday, September 27, 2008

Pabbi

Þetta er pabbi minn, virðulegi skólastjórinn og bæjarfulltrúinn enn einn daginn í vinnunni:) Af honum er ég stolt!

Monday, September 8, 2008

Rökrétt fóbía?

Ég vissi að niðurfallafóbían mín væri ekki algjör kjánaskapur! Tékkið á þessu...

Wednesday, September 3, 2008

Devil Sheep

Bwahahaha tékkið á þessu í boði Hjalta Karls sem sýnir mér svona vitleysu;)

Monday, September 1, 2008

Hvað skal éta?

Eftir að vera búin að hanga lasin uppi í rúmi alltof lengi er ég orðin svöng. Þar sem við Jóhanna vinnum báðar þokkalega mikið og fáum að borða í vinnunum eldum við afar sjaldan, veitingastaðir eins og Santa Maria og Eldsmiðjan halda okkur uppi þá daga sem við viljum borða kvöldmat heima;)
Innihald ísskápsins er því heldur fátæklegt, og sérstaklega þessa stundina þar sem ég hef ekki nennt í Bónus síðan Jóa fór út. Valið stendur því á milli fetaosts, ólífa, mismunandi majónessósa, kóks og bjórs. Veit ekki alveg hvað ég get mixað úr því, finnst það lítið spennandi...
Við eigum reyndar líka þónokkuð af prinspólói (sem Hjalti og félagar eru reyndar næstum búnir með) og ég held ég fái mér bara eitt slíkt og fari síðan í Bónus á eftir þrátt fyrir veikindin!

Friday, August 22, 2008

Lífið á Fjólugötunni...

...er gott:)
Það er gott að :
-búa með Jóhönnu og Rósu tík
-þurfa að labba stutt í bæinn
-búa rétt hjá Elínu vinnufélögu
-elda aldrei heima (er reyndar að verða þreytt)
-búa í fínni íbúð
-hafa afnot af bíl
Margt annað er líka gott, man það bara ekki alveg í augnablikinu, enda að reyna að horfa á bíómynd um leið og ég skrifa...

Í sumar höfum við stöllur skemmt okkur mikið á ýmsan máta og það hefur verið misviðburðarríkt. Ég sem ætlaði að fara svo mikið í ferðalög í sumar hef varla farið út fyrir 101 nema rétt til að kíkja í vinnuna, enda er náttúran í Hljómskálagarðinum þvílík að það er óþarfi að fara lengra til að njóta hennar.
101 er samt ekkert hverfi til að gera grín að, hér var kveikt í bíl, bara við húsið fyrir neðan okkur og aumingja nágrannar okkar Ingibjörg og Jón Ásgeir lentu í því að einhver krimmi rændi 9 gaskútum úr garðinum þeirra!

Núna er ég byrjuð að vinna í Salaskóla og líst vel á það, verð þar í 80% vinnu og 50% í Strýtuselinu. Það er ágætt að vinna svona í úthverfunum rétt til þess að minna sig á hvað það er gott að búa í miðbænum!

Jóhanna og fjölskylda fóru til Flórída í dag og ég verð alein heima með Rósu í 2 vikur! Á eftir að sakna sambýliskonunnar en líklega bætir hún mér upp einveruna með einhverju fallegu frá BNA!

Yfir og út

Sunday, June 29, 2008

dúbbídú

Núna er ég útskrifuð, orðin "Steinunn Hafsteinsdóttir með BA gráðu í þroskaþjálfun". Það eina sem stendur nú í vegi fyrir framúrskarandi faglegheitum og eilítið hærri launum er starfsleifið sem ætti að vera á leiðinni með póstinum:) Það er nefnilega ekki nóg að klára 90 einingar og fá skjal frá skólanum þar sem stendur að ég hafi lokið náminu, ónei ekki svo gott! Ég þurfti að fara á lögreglustöðina og fá staðfest ljósrit af plagginu (svona svo ég mundi ekki falsa það) og síðan alla leið út á Seltjarnarnes til landlæknis svo hann gæti stimplað það fyrir mig. Það að fá manninn til að lyfta hendinni kostar litlar 5500 krónur, það væri ekki amalegt að vera á slíku kaupi, en mín hendi er náttúrulega ekki jafn merkileg og hans og tími minn klárlega ekki jafn mikilvægur! (..smá biturleiki óvart!)
London var yndisleg, við skemmtum okkur mjög vel stöllurnar:) Það er svo langt síðan að við komum heim að ég man ekkert hvað við gerðum...en ég á nokkuð mikið fleiri föt en áður en ég fór og debetkortið er mun þynnra;)
Þessa helgi hafa Rósa og Jóhanna búið með mér því Halli fór til Parísar á Blizzardráðstefnu (Nördaþing). Sambúðin hefur gengið mjög vel, Rósu virðist líka vel við mig (já Rósa er hundur) og við kúrum allar saman á næturnar.
Sumarið leggst vel í mig, það flýgur reyndar hjá aðeins of hratt! Stefni á eitthvað ferðalag næstu helgi eins og margir aðrir...vona að veðrið verði gott, mjög týpískt samt að akkúrat þá fari að rigna!

Tuesday, June 3, 2008

OÓ!

Ísbjörn á landinu! Þetta hef ég óttast síðan ég var ca 6 ára og sá Nonna og Manna í fyrsta sinn. Þá varð ég svo hrædd að ég skipti um kojupláss við Brynhildi og fékk að sofa uppi svo ísbjörninn gæti ekki náð mér (ef svo líklega vildi til að hann væri á vappi um suðurlandsundirlendið og rataði akkúrat inn í okkar hús og upp í herbergi okkar systra!).
Eins gott að ég er að fara af landi brott í fyrramálið, vona að skepnan nái ekki til Reykjavíkur í dag!


Næst þegar ég fer í Húsdýragarðinn reikna ég með að sjá björninn, það er ábyggilega fínt að skella honum bara í selatjörnina!;)

Monday, June 2, 2008

Hættuför?

Hér bloggaði ég um fyrirhugaða hættuför til Indónesíu. Ég er núna hætt við þá ferð, ekki vegna hræðslu við flóðbylgjur eða fuglaflensu heldur vegna peninga og tímaskorts.

Á miðvikudaginn fer ég hinsvegar til London í 5 daga skemmtiferð og ég er farin að halda að sú ferð sé öllu hættulegri en þessi til Indónesíu. Ég sló London inn í leitina á mbl.is og komst að því á undanförum vikum hafa verið þónokkrar hnífsstunguárásir í borginni sem sumar hafa endað með láti, sprengingar, kröftug mótmæli, bann við myndum af Venusi (vegna nektar hennar) og áfengi í subway kerfinu, tölvubilun á Heathrow (þar sem ég kem til með að lenda), flugslys og fleira.

Það er ljóst að ég, Sæja og Jóa erum miklar hetjur að þora að stíga fæti inn í þessa Sódómu og eins gott að ég verði orðin hitalaus þá (já er veik *grenjvorkenniðmérgrenj*) því ég þarf alla mína krafta til að berjast við óaldarlýðinn sem mun líklega verða á vegi okkar!!
Hér er ég í fyrri Londonferðum mínum, lifði þær af þótt ótrúlegt sé!!;)

Friday, May 30, 2008

Could I have a cup of tea with this biscuit darling?

(Titill færslunnar skal lesinn með upperclassoldbritishlady-hreim)

London í næstu viku újé! Fer með Sæju og Jóhönnu, hef reynt að fá Gullu til að koma með en hún vill ekki! Við verðum í íbúð Hlínar frænku og Billa (sem eiga þessa heimasíðu án minnar vitundar þar til í gær!) og ég fékk lyklana í gær ásamt leiðbeiningum og ábendingum um góða staði í borginni:) Get ekki beðið eftir að versla, borða, labba, skoða, tala úglensku, sóla, sofa, fljúga, lesta, spúna og fleira. (Já stúlkur ég býst við miklu og góðu kúri...)

Þegar við komum heim byrja ég svo í sumarvinnunni minni og það verður gaman að hitta krakkana "mína" aftur:) 
James Blunt tónleikarnir eru í sömu viku og síðan útskriftin mín 14. júní! Þá verð ég loksins svöl með B.A. gráðu.
Er búin að fá vetrarvinnu í Salaskóla og Gulla verður þar líka! Vona að við verðum ekki farnar að berja hvora aðra í nóvember ca. eftir heilt sumar saman í 2 vinnum og síðan samvinnu í Salaskóla...þá held ég að ég verði að byrja aftur í einhverri bardagaíþrótt...

Farin að horfa á annan besta HIMYM þáttinn - Sandcastles in the sand

Friday, May 16, 2008

Hvar fór ég úr fötunum?

Hvert í fjandanum ætli kjólinn minn sé horfinn?? Ég var í honum á þriðjudaginn fyrir viku og hef ekki séð hann síðan, búin að leita allsstaðar hér heima! Þetta er allt hið undarlegasta mál og kemur ekki mjög vel út fyrir mig...ég er viss um að ég hafi ekki komið heim bara á leggings og hlýrabol!
Svona lítur kjóllinn út ef þið skylduð sjá hann einhversstaðar;)

Kannski finnst Halla hann bara ljótur og hefur hent honum. Ef ég kemst að því þýðir það stríð! Ætli kamógallinn verði þá ekki næstur! Múhahaha

Sunday, May 11, 2008

Námsvikan mikla

Skemmtileg vika að baki í norrænu samstarfi í skólanum. Skemmti mér gífurlega vel með Dönum og Grænlendingum og ekki laust við söknuð eftir brottför þeirra af klakanum.
Lærði margt þessa viku t.d. að:
-Danska er erfið, sérstaklega þegar maður ætlar að vera gáfaður og faglegur
-Piparmyntulíkjör í spræt er ekki kominn til að vera
-Ég skil ekki kaldhæðni á erlendum tungumálum
-Við Íslendingar erum ótrúlega langt komin í málefnum fatlaðra
-Þroskaþjálfar eru nauðsynlegir
-Ég get troðið mér í skó af Gullu
-Víkingahjálmur úr plasti fer mér vel
-Ef dagsskráin er léleg þá á að fara með sjónvarpið og kasta því í Kerið (allavega hefur einhverjum þótt það góð hugmynd...)
-Danir geta verið sérlega skemmtilegir djammfélagar
-Ekki allir Grænlendingar eru fyllibyttur
-Gulla á það til að "spúna"
-Nágrannar fíla ekki partý á þriðjudögum
-Ég á það til að fara í félagslegan baklás

Ahh bara að vikan gæti endurtekið sig, það væri yndislegt. Hér erum við Gulla hressar að vanda með dönsku bræðrunum Morten og Mads:)

Thursday, May 1, 2008

Búin með B.A.!!

Jáh í dag kláruðum við Jóhanna mín ritgerðina! Sendum pabba hana í síðustu yfirferð og ég er viss um að í þetta skiptið sé hún fullkomin...það er allavega eins gott því ég veit orðið allt of mikið um heimili fyrir börn og allt í kringum það, komin með hálfgert ógeð af eigin meistarastykki!
Fyrirlesturinn heppnaðist svona líka vel, mér var reyndar sagt af mörgum að ég hefði verið svolítið reið við flutninginn, sem var fullkomlega óvart, en það er kannski allt í lagi efnisins vegna.
Ég held reyndar að ég geri það svolítið mikið að vera óvart reið eða hvöss þegar ég ætla það alls ekki, ég er oft spurð afhverju ég sé pirruð þegar það á ekki við eða afhverju ég setti upp einhvern svip sem ég hef ekki hugmynd um að ég hafði á fésinu... Sumir hafa líka viðurkennt fyrir mér að hafa verið hræddir við mig við fyrstu kynni! Ég sem er ljúf eins og lamb og góð við flesta;)
Hver er hræddur við þetta ljúfa og fagra andlit????

Sunday, April 27, 2008

Ýmislegt

Jæja þá er komið að því! Á morgun kl u.þ.b. 11, mun ég kynna lokaverkefnið mitt um heimili fyrir börn í fyrirlestrarsal Kennaraháskólans. Þegar það verður búið þá á ég bara viku eftir af skólanum mínum! Það verður frekar ljúft að fá eins árs frí frá skóla en á næsta ári stefni ég á að fara til Boston að læra atferlisgreiningu:D
Ég er semsagt núna í miklu stressi að reyna að undirbúa mig sem best fyrir málþingið og þá er fátt betra en að hanga á facebook og bloggum;)

Ef einhver veit um íbúð sem ég get leigt eða bíl sem ég get keypt þá má hinn sami láta mig vita!

Í morgun benti Hjalti litli bróðir mér á próf á síðu SÁÁ. Þessi próf láta mann vita hvort maður þjáist af áfengissýki eða ekki. Þrjú af 4 prófum sögðu mér að ég væri alki og ég yrði að leita mér hjálpar svo ekki yrðu af því alvarlegar afleiðingar (Óli kannski hafðiru rétt fyrir þér?). Þetta eina próf sem sagði að ég þyrfti engar áhyggjur að hafa er samt klárlega áreiðanlegast, það vorum við Særún allavega sammála um;) Sumar spurningarnar voru líka ósanngjarnar eins og hvort maður geti drukkið 5 bjóra án þess að "sofna"...þekki engann sem getur það ekki...(gott að vera alki í afneitun hehe).
Hér eru prófin, þið getið athugað hvort þið komið með mér, Hjalta og Sæju í hópmeðferð.

Tuesday, April 22, 2008

Styrjöld í Bólstaðarhlíðinni

Stríðið er hafið! Ég sá fyrsta óvin ársins fljúgandi fyrir utan Kennó, í gulum og svörtum hergalla, hressan og til í allt:S Nú verða gluggar ekki opnaðir aftur fyrr en í október og ekki hangið úti að óþörfu...

Ef óvinirnir væru allir jafn sætir og þessi...

Friday, April 18, 2008

Muse Sing for Absolution

Ég er alltaf að læra að meta þá betur og betur. Þetta er nýjasta uppáhaldslagið mitt:) Myndbandið er reyndar ekki frábært en það er hægt að horfa framhjá því...

Monday, April 14, 2008

Fyndið og ógeðslegt

Það er margt sem maður rekur augun í á alnetinu. Þessir linkar eru í boði Hjalta og Halla, njótið:)

Huggulegar pöddur

Skemmtilegar "Pinjötur"

Wednesday, April 9, 2008

Stress og stuð

Ég sit inni á bókasafni að reyna að drösla af nokkrum verkefnum sem ég hef frestað allt of lengi. Það er eitthvað við bókasafnsloftið sem gerir mann þyrstan og fyllir mann af þreytu og óþreygju (Er það skrifað svona?). Verkefnin ganga því hægt á milli vatnsdrykkju og endurskipulagningu á playlista...
Á morgun klárast vettvangsnámið og þá tekur við enn meiri verkefnavinna, B.A. verkefnið skrifar sig víst ekki sjálft. Svolítið stress er að hreiðra sig um í maganum á mér fyrir fyrirlestrinum sem ég á að halda um verkefnið 28. apríl og líka fyrir erindinu sem ég flyt á dönsku í byrjun maí...þá mun ég líklega njóta góðs af allri dönskunni sem ég hef hlustað á í samræðum við Heidi mágkonu:D

Á morgun ætla ég að kaupa miða á James Blunt. Ég veit að það finnst fólki ekki endilega mjög svalt, sérstaklega ekki að borga tíu þúsundkall til að sjá manninn! En hann syngur bara svo falleg lög og á fallega rödd. Ég viðurkenni samt að ég mundi alveg mikið vilja að Coldplay eða Muse, tjah eða Decemberists væru að koma en maður tekur því sem maður fær, betlarar geta ekki verið veljarar...

Það er að frétta af Halla að honum hefur nú tekist að klára teninginn sem kenndur er við töfra á innan við 2 mínútum! Siliconið sem hann spreyjaði hann með til að gera hann liprari og sérpöntuðu vínyllímmiðarnir hjálpuðu líklega mikið til við bættan tíma. (Og já nei þetta með spreyið og límmiðana er ekki grín...)

Leikhús í kvöld á Þann ljóta, hef grun um að það verði frábær skemmtun!:D

Góðar stundir

Sunday, March 23, 2008

Töfrateningurinn


Halli fékk töfratening í afmælisgjöf og tók áskoruninni heilshugar. Við fundum formúlur á netinu til þess að leysa hann og ég fór og keypti mér tening líka svo ekki kæmi til upplausnar í sambúðinni. Við sátum svo góða kvöldstund við sitthvora tölvuna og börðumst við kubbana. Halli var heldur fljótari en ég og hjálpaði mér svo að skilja þetta dæmi, því þó maður hafi formúlurnar er þetta engin kökusneið! Við höfum núna bæði leyst teningana okkar, ég nokkrum sinnum en Halli örugglega hundrað sinnum! Hann er búinn að læra utan að allskonar formúlur sem innihalda "milljón" hreyfingar og getur nú gert þetta allt saman án tæknilegrar hjálpar, nokkuð gott verð ég að segja. Þess má geta að þessi utanbókarlærdómur tók u.þ.b. 48 klukkustundir þar sem fátt annað komst að, ekki einu sinni Team fortress!
Gestir og gangandi hafa líka fengið að njóta góðs af þessari frábæru gjöf, en Gulla og Jóhanna spreyttu sig eitt kvöldið við að leysa dæmið með dyggri hjálp Halla:)
Næsta skref er að sjálfsögðu keppni í lausn töfrateningsins og Halli er nú þegar byrjaður að æfa sig að nálgast heimsmetið sem eru 11sekúndur...

Páskarnir

Við erum í vellystingum á Hnífsdal. Hér er ennþá hávetur, allt á kafi í snjó og frekar kalt. Við skelltum okkur á gönguskíði í sólinni á föstudaginn og það var prýðilegt, fórum samt bara 3 frekar litla hringi því skíðaganga er erfiðari en hún virðist! Í gær kíktum við á Aldrei fór ég suður og þar var svo ótrúlega stappað að það var ekki verandi þar alls ódrukkinn, við stoppuðum því stutt og fórum bara heim í náttföt að spila:D
Í dag var það svo baráttan við páskaeggið. Ég byrjaði snemma að vinna í því en á tímabili var tvísýnt um hvort okkar kæmist lífs af, ég eða eggið. Ég hafði það þó undir og nú liggja síðustu sönnunargögnin um það gjörsigruð í skál við hliðina á mér.
Nú erum við á leiðinni í mat til stjúptengdafjölskyldu minnar og ætli kvöldið endi ekki á nammiáti og spilamennsku, ansi ljúft líf:)

Monday, March 17, 2008

Að koma sér hjá því að læra

Það er mikið að gera í skólanum á þessari önn, lokaverkefni, verknám með tilheyrandi verkefnum og svo einn leiðindaáfangi sem ég geri mér ekki alveg grein fyrir um hvað fjallar en honum fylgir frekar tilgangslaust og tímafrekt verkefni. Ég tel mig vinna best undir pressu og hef því ekki mikið byrjað á verkefnunum nema lokaverkefninu, ákvað að ég myndi byrja af alvöru í páskafríinu. Nú er páskafríið byrjað, 3 dagar liðnir og ekkert hefur gerst. Ég ætlaði að vera ofurmannlega dugleg í dag og klára að minnsta kosti eitt verkefni.
Það sem ég hef gert fram að þessu er:
-Halaði niður James Blunt diski og hlustaði á (ætlaði sko að byrja að skrifa þegar hann væri búinn)
-Skoðaði hálft alnetið (ætlaði bara að skoða eina síðu enn og svo byrja að skrifa)
-Lagði mig (var of þreytt til að skrifa og það mundi örugglega ganga betur eftir smá lúr)
-Hannaði föt sem ég ætla að sauma í huganum
-Fór í bað (er svo illt í hálsinum eftir slagsmál helgarinnar (í vinnunni sko) og var viss um að heitt bað mundi laga það)
-Drakk stóran bolla af kaffi (hann mundi örugglega skerpa einbeitinguna)
-Vaskaði upp (ég get ekki lært í drasli)
-Sendi BN meil
-Setti í 2 vélar og hengdi upp
-Skoðaði alnetið aðeins betur og blogga snöggvast
-Planaði hvað ég ætla að gera við afganginn af deginum þegar ég verð búin að læra
Núna er ég á leiðinni að endurskipuleggja eldhúsið því Halli fékk sodastream tæki í afmælisgjöf og það þarf að búa til pláss fyrir það. Bráðnauðsynlegt að gera það akkúrat núna og ekki seinna!

Þetta er sumsé afkastamikill dagur í öllu öðru en lærdómi. Það hlýtur samt að reddast eins og venjulega...

Wednesday, March 12, 2008

Halli og tölvan

Halli keypti sér ný heyrnartól í vikunni, ofursvöl með "mæk" og öllu. Á sama tíma uppgötvaði hann einhvern fallegan leik þar sem hann á að drepa óvini með stórri byssu eða handsprengjum, þennan leik spilar hann með Simma og Óla og einhverjum útlendingum. Ég spurði hann í fyrrakvöld hvort hann vildi ekki fara út og hitta einhvern (var með samviskubit yfir að skilja hann einan eftir heima fimmta kvöldið í röð), þá benti hann á skjáinn og sagði "ég er með strákunum!", gott og blessað. Í tölvuleiknum talar hann líka við strákana, ekki bara með því að skrifa heldur með því að tala í nýja "mækinn". Ég hrekk iðulega við þegar setningar eins og "soldier in your base", "ég er á leiðinni!" og styttingarnar lol og gg glymja yfir stofuna! (ok setningarnar eru einhverjar aðrar en ég man þær aldrei, bjó því til eitthvað sem hljómar svipað).
Ætti ég að hafa áhyggjur?

Coldplay - The Scientist

Ahh fallegt lag, fallegt myndband og fallegur maður! Njótið:)

Thursday, March 6, 2008

Þjófur í Bólstaðarhlíð?

Síðasta helgi var mikið stuð. Við vinkonurnar skemmtum okkur konunglega á árshátíðinni sem og allur Kennaraháskólinn held ég bara! Við rifjuðum það upp á sunnudaginn að Geir Ólafs kom og skemmti mannskapnum í boði bóksölunnar, Gulla henti í hann rusli...
Á laugardeginum var starfsmannadjamm sem byrjaði á Sægreifanum. Heilsa mín var ekki sem best og þess vegna ákvað ég að ég skyldi bara fara snemma heim og taka því rólega. Nú þegar ég mætti svo á staðinn og hitti skemmtilega samstarfsfólk mitt gat ég ekki staðist það að skemmta mér með þeim;) Við fórum á Hjálma á Nasa og ég skemmti mér svo vel að ég man ekki eftir að hafa séð eða heyrt hljómsveit spila, man þó vel eftir að hafa kjaftað, dansað og fíflast:)
Ég var svo vitlaus að taka strætókortið með í bæinn og á mánudaginn þegar ég ætlaði að nota það var það horfið og bókasafnskortið mitt líka. Ég leitaði út um allt og fann svo í gær bókasafnskortið á stéttinni hér fyrir utan. Ég er nokkuð viss um að það ásamt strætókortinu hafi dottið úr þegar ég kom heim í leigubílnum. Nú hef ég hringt út um allt og vonað að skilvís (asnalegt orð...) finnandi mundi skila kortinu á einhvern góðan stað. Svo er ekki:( Ég þarf því að punga út 12.500kr fyrir rauða kortinu, alveg ömurlegt!

Það sem er þó merkilegt er að ég var með budduna mína með kortunum, lyklunum, verkjatöflum og glossi bara á lausu, ekki í neinni tösku og ég týndi henni ekki!! Manni fer fram...

Læt hér fylgja mynd frá árshátíðinni í boði Særúnar. Það var minnir mig enginn með myndavél á laugardeginum, sem betur fer held ég bara.

Tuesday, March 4, 2008

Halli á skautum, múhahaha


Ég get ekki verið þekkt fyrir að hafa svona væmna færslu efst. Því set ég þessa mynd hér. Alltaf gaman að hlægja á kostnað annara:D

Sunday, March 2, 2008

7 ár!

Jább 7 ár er þokkalegt. Sjáið þið hvað við erum falleg og sæt? Ansi vanaföst líka því ég er hægra megin við Halla á öllum myndunum nema síðustu!;)

Thursday, February 28, 2008

Jább ég sit hér uppi í Salaskóla og vafra aðeins á netinu eins og hver annar virðulegur þroskaþjálfi:) Verknámið er skemmtilegt og ég er núna á fullu að föndra við vinnuverkefni ætluð fyrir einhverfa nemendur, stuð og læti.

Á morgun er árshátíð Kennó og það verður vonandi gaman. Ég er að basla við að endursauma gamlan glimmerkjól af mér sem mun vonandi ganga, þá verð ég flottust á staðnum og allir í kringum mig glimmeraðir. Síðast þegar ég var í kjólnum var á árshátíðinni á öðru árinu í MH. Þá var Halli í forláta Boss ullarjakkafötum sem hann keypti á aðeins 500kr á fatamarkaði, ofurtöff. Þau hanga ennþá inni í skáp..kannski ég ætti að reyna að sníða þau til líka svo hægt sé að nota þau, þau eru nefnilega í sniði sem einkenndi áttunda áratuginn, sumsé ekki mér að skapi.

Hér erum við skötuhjúin úti að borða fyrir árshátíðina fyrir 6 árum!! Þeir sem ekki þekkja til gætu haldið að Halli sé blindur að lesa BRAIL en sú er ekki raunin, þetta var bara svona gott augnablik;)



Á laugardaginn er svo starfsmannapartý í Strýtuselinu. Það þýðir að ég mun í annað sinn á ævinni drekka tvo daga í röð! Sunnudagurinn verður því erfiður og fer líklega bara í sjónvarpsgláp og kósýheit, vííí:D

Wednesday, February 20, 2008

Hetja eða fífl?

Í ágúst mun ég leggja land undir fót og skella mér í bakpokaferðalag til Indónesíu. Nei maður er sko ekki að fara á einhverja sólarströnd í Evrópu þar sem ekkert gerist heldur á stórhættulegar slóðir flóðbylgjunnar miklu. Ég prófaði í gamni mínu að slá inn Indónesía í leitinni á mbl. Hörmunganiðurstöðurnar létu ekki á sér standa, jarðskjálftar með dauðsföllum síðast í dag, fuglaflensa (Indónesía er það land sem hefur farið verst í henni), flóðbylgja, aurskriður og útlendingar handteknir fyrir daður! Spurning hvort það sé fífldirfska að fara á slíkar slóðir...
Það eru reyndar líka góðar fréttir þaðan, ritstjóri indónesíska Playboy slapp við fangelsi, fyrrum einræðisherrar fá bætur frá Times tímaritinu og nýjar spendýrategundir hafa fundist þar;)

Hver veit nema ég hitti þessa dúdda?

Tuesday, February 19, 2008

Að borða ónýtan mat

Hér skrifaði ég um það þegar ég át ónýtar pylsur en það er alls ekki einsdæmi að ég borði ónýtan mat. Þegar ég bjó hjá mömmu og pabba var ég iðulega að borða eitthvað álegg á brauðið mitt þegar einhver fjölskyldumeðlimur gekk inn, opnaði ísskápinn, þefaði af sama áleggi og ég var að éta og henti því fullur viðbjóði. Ég get ekki fundið á lyktinni hvort matur sé ónýtur eða ekki. Einhverntíman sá ég í fræðsluþætti (á ruv auðvitað) að ónýtsmatarskyn væri innbyggt í manneskjuna!
Um daginn keypti ég 2 græna skyrdrykki. Fékk mér annan daginn eftir og fannst hann súr en ákvað að það vantaði bara bragðefnið í hann eins og hefur komið fyrir og sturtaði honum í mig. Skyrdrykk nr. 2 drakk ég nokkrum dögum seinna og var þess vegna aðeins skeptískari þegar ég smakkaði hann og hann var líka súr. Ég bað Halla að smakka drykkinn og hann sagði að hann væri í fínasta lagi. Mér fannst hann vondur en mér hefur oft fundist óskemmdur matur vondur svo ég píndi hann bara í mig.
Í gær keypti ég svo samskonar skyrdrykki. Þegar ég smakkaði þá voru þeir sætir og góðir og allt öðruvísi, ég þurfti ekki að pína þá oní mig heldur runnu þeir ljúflega niður. Það var þá sem ég áttaði mig á að hinir voru líkast til ónýtir. Ég sagði Halla frá því að ég hefði enn einu sinni étið skemmdan mat og þá fór hann að hlæja. Kom þá í ljós að hann laug að mér þegar hann smakkaði drykkinn, hann vildi sjá hvort ég mundi í alvörunni drekka ónýtt skyr!!

Thursday, February 14, 2008

Fésbók, tómur uppspuni?

Fésbók (Facebook upp á útlenskuna) býður upp á hin ýmsu próf sem geta sagt manni ýmislegt um mann. Ég fæ iðulega mikið af boðum í slík próf frá Fésbókarvinum mínum (reyndar aðallega Gullu þessa dagana sem gerir ekki annað en taka próf!) og ef prófið getur sagt til um eitthvað merkilegt, eins og t.d. hvaða Hollywood-koss ég sé, þá tek ég það.
Oft er prófið hræðilega nákvæmt, eða eins og kaninn orðar það "scarily accurate" (hversu nákvæmlega er samt hægt að finna út hvaða kynlífsleikfang maður er?? "já mér líður akkúrat eins og víbrador!").
Samkvæmt prófunum væri ég Ben Stiller ef ég væri stjarna, sveppir ef ég væri eiturlyf, ég giftist eftir 8 ár, ástarlíf mitt er eins og kvikmyndin "The princess bride", ég fell fyrir herramönnum (Halli hagaði sér eins og herramaður fyrstu 2 vikurnar) og ég gef frábæra "first impression". Ég ætla ekki að draga neitt af þessum niðurstöðum í efa enda svara ég alltaf af hreinskilni og fæ þar af leiðandi rétt svör....Þangað til í dag!

Twig
You're a twig! Now, you PROBABLY cheated on the quiz, but if not, you're like the healthiest person alive. You exercise, drink enough water, and eat right. Your friends are all also healthy, or they all rip on you for being a hippie vegan. Pass the mock jambalaya, please.

Ég svindlaði ekki á prófinu, ég geri það aldrei, en þeir sem mig þekkja vita að ég er ekki eins og sprek og er langt frá því að vera ofurheilbrigð...! Þetta fær mig til að efast um spádóma Fésbókarinnar, hvernig á maður að treysta henni eftir þetta?!?

Tuesday, February 12, 2008

Hrmpf!

Jútjúb var ekki í samvinnuþýðu skapi í dag. Ég var búin að velja myndband við yndislegt lag og ætlaði að deila með ykkur, skrifaði meiraðsegja mjög skemmtilega færslu með um tónblindni Halla og ást mína á Coldplay, en ekki birtist það á blogginu. Svekk...

Ég er búin að vera óvenju menningarleg síðustu daga. Er búin að fara 3 sinnum í bíó á ca 2 vikum og er á leiðinni í leikhús á fimmtudaginn.
Ég sá myndina Brúðguminn og hún er mjög skemmtileg, mæli með henni, sá svo Atonement og hún er líka góð, er núna að vinna í bókinni, og um helgina sá ég hálftíma af Býflugnamyndinni (í vinnunni), hún var ekki að mínu skapi og fólkinu sem ég var með leiddist, var búið með nammið og farið að ókyrrast svo mikið að við urðum að fara;)
Á fimmtudaginn fer ég með 3 vinkonum og einni systur á Baðstofuna eftir Hugleik. Geri ráð fyrir góðri skemmtun þar:D

Kannski kemur fallega lagið hér inn seinna, bíðið spennt!

Saturday, February 9, 2008

Ég ætla að verða froskur þega ég verð stór!

Skondin saga af litla skrímslinu mínu henni Önnu Petreu:

Brynhildur situr inni í herbergi að lesa einhverja skemmtilega anatómíubók eins og vanalega.

Anna: Afhverju ertu að lesa?
Brynhildur: Svo ég geti orðið læknir.
Anna: Jaá, maður þarf líka að lesa til að verða froskur...
Brynhildur: Ha? Hver ætlar að verða froskur??
Anna: Steinunn!

Já þar hafið þið það! Ég er að lesa bækur til þess að verða froskur, það er göfugt verkefni;) Reyndar er ekki skrítið að það hafi eitthvað skolast til þegar ég sagði henni að ég ætlaði að verða þroskaþjálfi og atferlisfræðingur, ekkert einföld orð svosem. Er bara ánægð með að hún mundi nokkra stafi:) Ekki bætti heldur úr skák þegar systkinaómyndir mínar fóru að rugla með froskaþjálfa og froskabjálfa...aldrei er gert grín að lækninum, hún er bara beðin að lækna! Hvenær má ég þroskaþjálfa fólkið mitt??
Ef ég verð froskur verð ég allavega konunglegur froskur!

Tuesday, February 5, 2008

Dagurinn hefur verið niðurnegldur - The date has been set!

Já það er ljóst, stóri dagurinn nálgast óðfluga. Takið frá 4. febrúar 2016 því þá mun ég gifta mig. Það segir Andlitsbókin (Feisbúkk) allavega og ekki ætla ég að véfengja þann áreiðanlega miðil;)
Nú þarf ég bara að byrja að skipuleggja, finna hinn fullkomna kjól o.s.frv.!
Ætli ég geti fundið eitthvað test sem segir mér hvenær ég mun eignast börn og flytjast í úthverfi?

Monday, February 4, 2008

Slumberpartý

Litlu fósturdætur mínar gistu saman hjá mér um helgina. Það var mikið stuð og voða gaman:)
Hér eru nokkrar myndir af þeim stöllum:

Hnoðast í rúminu og horft á Skoppu og Skrítlu fyrir svefninn
Steinsofnaðar eftir að haf hlustað á söguna um Búkollu:)
Baðaðar, klæddar og greiddar alveg eins að bíða eftir því að komast út.

Eftir þetta partý varð mér ljóst að líklega væri best að eignast tvíbura þegar að því kemur. Við þurftum lítið sem ekkert að hafa fyrir stúlkunum, þær léku sér nánast áfallalaust saman:D

Strætó

Þeir eru heppnir sem fá að ferðast reglulega með strætó. Ég er ein af þeim hópi. Í strætó fær maður að sjá allt skemmtilegasta fólk samfélagsins og þar hef ég orðið vitni að ýmsu skemmtilegu, og það gerist gjarnan þegar ég tek strætó með Sæju minni.
Fyrir sirka ári fórum við út að borða með bekknum niðrí bæ og síðan var förinni heitið í partý í Breiðholtinu. Huggulegu bekkjarfélagar okkar skildu okkur bíllausu aumingjana eftir og við urðum að taka strætó. Það reyndist þó hin mesta skemmtiferð. Létthífaðar skemmtum við okkur nefnilega konunglega yfir 2 mönnum sem voru að kjafta ókunna gamla konu í kaf um sveitafólk og skyldmenni sem hún vissi ekkert um, ég man því miður ekki alveg hvað þeir sögðu svo að þetta verður að vera svona "góð saga";)
Í síðustu viku ákváðum við að gera okkur dagamun með því að taka strætó í Bónus úti á nesi. Á leiðinni til bara sátum við sitthvorumegin við ganginn og fyrir aftan Sæju sat maður og talaði við sjálfan sig. Þegar komu pásur í samræðurnar hjá honum smellti hann fölsku tönnunum út úr sér og lék við þær með tungunni, yndislegt alveg hreint og það kostaði þó nokkur átök að kæfa hláturinn!
Við tókum svo strætó í dag í Mál og Menningu á Laugaveginum til þess að kaupa okkur lesefni og á leiðinni heim sátu 2 ungar stúlkur rétt hjá okkur. Þær brustu í söng á miðri leið og skemmtu okkur og öðrum með rödduðu lagi úr Aladdín.
Það er reyndar ekki í fyrsta sinn sem fólk brestur í söng með mér í strætó, ung stúlka tók Úlfasönginn úr Ronju ræningjadóttur með mikilli tilfinningu og fékk klapp fyrir frá öllum farþegunum;)
Það má kannski líka minnast á að einhverntíman var ég í strætó ásamt fjórum öðrum farþegum og allir virtust að minnsta kosti vera heimilislaust ógæfu fólk nema ég, hvað segir það manni?

Thursday, January 24, 2008

Wii olnbogi

Ég fór til Óla og Soffíu í gær og þar fórum við í ýmsa leiki eins og hafnabolta, box, tennis og keilu. Að sjálfsögðu vorum við ekki að leika okkur í alvörunni enda er það ótrúlega hallærislegt! Við erum svöl og lékum okkur í nýja dótinu hans Óla, Nintendo Wii.
Ég var afspyrnu léleg í öllum leikjum og tapaði með glæsibrag. Það vantaði þó alls ekki upp á keppnisskapið og ég sveiflaði höndunum eins og geðsjúklingur í veikri von um sigur. Í dag er öxlin mín og olnboginn á hægri hendi að súpa seyðið af ólátunum því ég er öll aum og ekki frá því að harðsperrur séu á leiðinni.
Ég sá svo þessa síðu. Ég er ein af lúðunum sem finnur fyrir einkennum eftir tölvuleikjaspilun...ekki svalt!

Ég fékk líka að kenna á því að hafa verið í einu fjölskyldunni í sveitinni sem ekki átti nintendo tölvu fyrir 13-15 árum. Við Soffía fórum nefnilega í Super Mario og ég er ömurleg í þeim leik, gat ekki einu sinni stjórnað kallinum almennilega. Frekar lélegt að geta ekki klárað borð í leik sem ætlaður er litlum krökkum...
Soffía vægast sagt rústaði mér enda er hún með límheila sem minnir á undarlega sérvitringa og mundi náttúrulega öll "múvin" síðan hún var átta ára!!!


Wednesday, January 23, 2008

Glansandi byssur

Það er ekkert slor að vera að æfa í Laugum. Öll tæki og tól eru prýðileg og sturturnar fínar. Í síðustu viku áttaði ég mig á hvers vegna það er dýrara að æfa þar heldur en í baðhúsinu því sjálfur Jói Fel var við hliðina á mér að "vörka" byssurnar! Ég náttúrulega gapti af gleði og undrun og gjóaði augunum að honum í speglinum. Hann var sveittur og það stirndi á hrausta húðina. Hárið var vatns (eða svita) greitt aftur, já flottur var hann. Hraustleikinn er greinilega í ættinni því við Jói erum þremenningar og þessvegna náskyld!!
Ég veit að Særún og allar hennar vinkonur öfunda mig af því að fá að berja manninn augum í ræktinni...kannski þið ættuð að skella ykkur í Laugar og láta tjéllinguna í Baðhúsinu eiga sig?!

Friday, January 18, 2008

Lati Geiri á lækjarbakka lá þar til hann dó...

Það er erfitt að vera í fríi. Í dag hefur lítið verið um athafnagleði hjá mér og ég hef að mestu legið uppi í sófa. Ég sinnti að vísu Arneyju í 2 og hálfan tíma og rölti svo aðeins út með Sæju, en eftir að ég kom aftur heim um 1 leitið ca. er ég ekkert búin að gera!! Ég lagðist upp í sófa og þar hef ég verið að lesa blogg ókunnugrar konu. Ég er búin að þurfa að pissa í meira en klukkutíma og mér er líka ískalt en ekki nenni ég að standa upp. Vona að ég drullist framúr á einhverjum tímapunkti...
Ef ég svara ekki á msn og ekki í símann þá er ég líklega dauð úr kulda eða sprunginni þvagblöðru!!!

Tónlist

Jæja komið nú með einhverjar góðar hugmyndir að tónlist og sjónvarpsefni! Mig vantar þær:D


Tuesday, January 15, 2008

Óheppin?

Það getur haft sína ókosti að eiga ástmann sem er að læra sjúkraþjálfun. Það kom í ljós að hálsnuddið var ekki bara svona eitthvað kósý dæmi og að "hálsinn" nær lengst niður á bak! Halli nuddaði mig í tætlur á meðan ég öskraði og reyndi að vera kyrr á meðan ég kvaldist. Ég get ekki annað en hugsað með vorkunn til sjúklingsins sem fær þessa meðferð hjá honum í dag á Reykjalundi...

Monday, January 14, 2008

Heppin

Það hefur sína kosti að eiga ástmann sem er að læra sjúkraþjálfun. Hann er núna í verknámi og sinnir allskonar sjúklingum. Þegar hann kom heim í dag sagði hann "hey ég verð svo að fá að nudda á þér hálsinn á eftir til þess að æfa mig fyrir morgundaginn!"...ég náttúrulega fórna tíma mínum til þess að aðstoða hann við námið!;)

Heimavinnandi húsmóðir

Þessa vikuna fæ ég að prófa hið ljúfa líf heimavinnandi húsmóðurinnar. Þetta krútt var hjá mér í dag og verður eitthvað næstu daga á meðan móðir hennar menntar sig:) Dagurinn var nokkuð góður. Arney var samvinnuþýð og svaf heila 3 tíma samtals og á meðan gat ég horft á sjónvarpið, sem er að sjálfsögðu stór hluti af lífi húsmæðra! Við lékum okkur líka svolítið með bolta og bangsa sem var hressandi.
Ég var líka heppin því sú stutta vildi ekki matinn sinn og skildi því eftir gómsætt epla og plómumauk sem ég borðaði með bestu lyst yfir góðum sjónvarpsþætti:D


Ég hef ekkert að segja um þessa mynd en hún er bara svo ótrúlega flott að ég varð að skella henni á alnetið!!!;)

Sunday, January 13, 2008

Megastuð

Tékkið á þessum leik! Hann er mjög súr enda gerður af Japönum og hann er líka erfiður. Reyndar svo erfiður að eftir nokkra klukkutíma gúgluðum við Halli honum til þess að finna lausnina. Endilega spreytið ykkur!

Wednesday, January 9, 2008

Ársuppgjör

Ég hef tekið eftir því að flestir bloggarar sem ég les gera svona ársuppgjör um áramótin. Það hef ég ákveðið að gera líka:D

- Árið 2007 byrjaði á því að pabbi fór til Finnlands í mastersnám og þar var hann fram á sumar. Mamma fylgdi honum í apríl og það var skrítið að vera munaðarlaus, gott samt að hafa mikinn og góðan aðgang að bíl;)
- Ég byrjaði í nýrri vinnu í janúar, í Strýtuseli sem er nýtt heimili fyrir einhverfa stráka. Þar er frábært að vinna en þetta fyrsta ár heimilisins var mjög erfitt, við höfðum í allt 7 yfirmenn og á tímabili var ég ákveðin í að hætta. Það leið þó hjá og núna er ég ánægð.
- Soffía og Óli eignuðust Arneyju Vöku í mars, dúllumús númer 2.
- Ég fór í vettvangsnám í Öskjuhlíðarskóla sem var ágætt. Þar sannfærðist ég um ágæti sérskóla en sá að mig langaði ekki sérstaklega að vinna þar sjálf.
- Í maí vann ég í Salaskóla sem gangavörður, forfallakennari og dægradvalarstarfsmaður. Ég get með sanni sagt að gangavarðarstarfið er það leiðinlegasta sem ég hef nokkurn tíman gert! Dagarnir liðu hægt og skúringar eiga illa við mig.
- Í maí fórum við Halli líka til Helsinki að heimsækja mömmu og pabba og það var ótrúlega skemmtilegt. Eurovision var akkúrat þá helgi sem við komum og við upplifðum mikið af fólki og júróvisjón þorpið fræga sem var ekki svo merkilegt. Við fórum líka til Tallinn í Eistlandi og sú borg er æðisleg. Það var mikið verslað, étið og skoðað:)
- Á meðan við vorum úti fluttu Atli, Heidi og börnin til Danmerkur og það fannst mér leiðinlegt, ég hef saknað þeirra síðan:( Það góða er að nú er alltaf afsökun til þess að fara til útlanda!
- Í sumar vann ég í sumardagvist fyrir einhverf börn í Fossvogsskóla með 3 yndislegum bekkjarsystrum mínum og 4 öðrum frábærum krökkum. Við skemmtum okkur konunglega í allskonar leikjum og fíflagangi í allt sumar. Það gerðist líka í sumar að Halli fékk sundlaugarvarðarpróf! Það er mjög merkilegt þar sem að hann er vatnshræddur og frekar illa syndur. Við tókum nokkrar sundæfingar fyrir prófið þar sem hann æfði sig í björgunarsundi og köfun og hann stóðst síðan prófið:)
- Í ágúst fórum við Halli til Krítar í viku. Þar lágum við á ströndinni, sváfum og borðuðum. Það gerðist lítið markvert en það var samt ótrúlega næs ferð:)
- 2 dögum eftir að ég kom heim frá Krít fórum við Brynhildur til Fjenneslev og síðan Kaupmannahafnar. Við lékum okkur mikið við frændsystkinin, drukkum bjór og tjilluðum með stórabróður og mágkonu:) Í Köben fórum við á allskona hlaðborð frá öllum heimshlutum og versluðum ógrynni af fötum. Við skoðuðum líka smá, kíktum í tívolí til dæmis.
- Skólinn byrjaði svo aftur og þetta var skemmtileg önn með milljón verkefnum sem gengu bara prýðilega.
- Ég átti afmæli og varð 23...það er alveg doldið mikið, bara 12 ár í að ég verði fullorðin!
- Í október fór ég í fjórðu utanlandsferðina mína á árinu! (fátækir námsmenn hvað??). Bekkurinn fór saman í ferð til Kaupmannahafnar að skoða nokkra staði sem þjónusta fatlaða og drekka öl og versla og skemmta sér.
- Ég man ekkert markvert sem gerðist í nóvember! Hmm eða jú við veiddum Friðgeir rjúpuna frægu!
- Í lok ársins vann ég mikið því við vorum búin mjög snemma í skólanum, eða 4. des.. Í desember gerðist líka sá sorglegi atburður að litli frændi minn, Högni (18 ára) lést eftir nokkurra mánaða baráttu við krabbamein. Jarðarförin hans var vikuna fyrir jól og var einstaklega falleg en setti undarlegan svip á jólaundirbúninginn:(
Birna útskrifaðist líka loksins í desember og er þar með orðin stúdent! Það var partý með fullt af bollu sem rann ljúflega niður en ég var samt eitthvað óþarflega skynsöm og fór ekkert niður í bæ eða neitt. Til hamingju Birna!!

Jáh þá er árið komið, eða svona það markverða sem ég man! 2008 lofar góðu, ég mun útskrifast, finna mér vinnu og fara í eitthvað gott ferðalag með Gullu og öðrum hressum stelpum:)

Wednesday, January 2, 2008

Jólin

Jólin hafa verið einstaklega góð í ár, enda hef ég verið í þokkalegu fríi frá vinnunni og bara slappað vel af:) Ég fékk marga fallega pakka en sá sem stendur sérstaklega upp úr eru ótrúlega fallegir hælaskór sem Halli gaf mér! Hann kom mér ekkert smá á óvart;) Við borðuðum Friðgeir annan í jólum og hann var ljúffengur, stóð vel undir væntingum.
Núna sit ég í stofunni á Hnífsdal en hér vorum við yfir áramótin. Það leit reyndar ekki út fyrir að við mundum komast vegna veðurs en það var sem betur fer flogið á mánudagsmorguninn. Flugið var hinsvegar það versta sem við höfum lent í hingað til, mikil ókyrrð og fólk farið að taka upp ælupokana. Við þurftum svo að taka hring í mestu ókyrrðinni vegna éls sem gekk akkúrat yfir Ísafjörð þegar átti að lenda. Sem betur fer ældi enginn því líklega hefðu þá allir ælt, ég er fegin að hafa sloppið við þá reynslu;)
Við erum búin að hafa það afar notalegt hér, höfum spilað mikið, borðað mikið, sofið mikið og horft mikið á sjónvarp. Þess á milli höfum við leikið okkur aðeins við Guðrúnu Helgu mágkonu:)

Gleðilegt ár!