Wednesday, December 12, 2007

Versta martröðin verður að veruleika!

Hér segir Gulla frá því hvernig hún lenti í prófamartröð dauðans. Hún vaknaði þegar próf var byrjað en náði þó að koma sér á staðinn og fékk að taka prófið. Halli, ástmaður minn;) , lenti í svipaðri martröð í morgun nema hann gekk nokkrum skrefum lengra. Eins og margir vita á Halli mjög auðvelt með að sofa og ef það er ekkert sem vekur hann þá bara sefur hann endalaust! Í morgun átti hann að fara í próf klukkan 9 og planaði að vakna klukkan 8. Símahelvítið varð hinsvegar batteríslaust í nótt og hann vaknaði ekki fyrr en korter í 12!!! Þá var prófið búið og ekki séns að fá að taka það fyrr en í ágúst:( Hann tók því þó með ótrúlegri ró og byrjaði bara að læra fyrir næsta próf. Ég hefði líklega öskrað og grenjað eins og óhemja í allan dag og hætt við að taka hin prófin!
Já hann er hetja og ég ætla mér að vera extra ljúf næstu daga, tuða sem minnst og gefa honum bjór og súkkulaði í skaðabætur:)
Halli í banastuði!

Sunday, December 9, 2007

Afmælisbarn dagsins!

Hún móðir mín er 49 ára í dag! Hún heldur upp á daginn í Danaveldi með Atla, Heidi, Önnu Petreu og Emil Ingo, já og auðvitað pabba. Til hamingju mamma!:D


Óli átti afmæli á föstudaginn og varð 24 ára:) Þessi mynd var tekin fyrir 1 og hálfu ári, takið eftir hversu vel hærður hann er! Til hamingju Óli!!:D

Saturday, December 8, 2007

Krummi

Hvernig ætli krummapaté smakkist? Mér finnst það allavega hljóma fallega. Það eru tveir krummar á bílastæðinu hér fyrir utan að gæða sér á gömlum mcDonalds og ég er með haglara inni í geymslu! Gæti kannski líka bara handsamað þá með berum höndum...





Friday, December 7, 2007

It's Always Sunny In Philly / Yndislegir þættir!

Þetta eru nýjustu vinir mínir, en ég á marga. Þessir þættir eru æðislega fyndnir! Mér leist reyndar ekkert á þá í byrjun en núna elska ég þá. Kíkið hér á fimm skemmtileg atriði úr fyrstu seríu:)

Tuesday, December 4, 2007

Afmælisbarn dagsins!

Anna Petrea litla og besta frænkan er fjögurra ára í dag! Því miður er hún í Danmörku en ég hér á Íslandi svo það verður lítið um afmælisknús. Ég plana samt að nýta mér tæknina á morgun og spjalla við hana á skype:D Vonandi fær hún fullt af pökkum með glimmeri í og gómsæta köku!

Monday, December 3, 2007

Steinunn verður stór

Í dag ákvað ég að það væri tími til að fullorðnast. Ég keypti væmnasta kaffið sem Halli gat bent mér á, kaffirjóma, 70% súkkulaði og oggulitla og sæta pressukönnu. Já ég ákvað að byrja að drekka kaffi! Ástæðan var meðal annars sú að ég sá fram á að þurfa að læra aðeins fram á kvöld og það væri líklega gott að hafa eitthvað örlítið örvandi með því. Kaffið drakk ég, alveg næstum heilan bolla og fannst ágætt, allavega drekkandi. Ég hef líka setið við lærdóm og haldið einbeitingunni þangað til núna að verða 10! Yfirleitt gefst ég upp um 3 leitið á daginn...
Nú er ekki langt í þann draum að strunsa um bæinn með "teikavei" kaffi í dragt, það er eitthvað undarlega svalt við það. Kannski samt ólíklegt að þroskaþjálfinn verði mikið í drögtum en það er aldrei að vita nema það sé hægt að framkvæma á sunnudögum svona til spari...
Ég vil þó koma því á framfæri að þó ég sé komin í fullorðinna manna tölu þá vil ég alls ekki láta kalla mig konu, það gerist þegar ég verð 35 ára;)

Vil benda ykkur á þessa síðu. Hún fjallar um fólk sem hefur verið "upptekið" af geimverum og hefur fundið frábæra leið til þess að koma í vegfyrir að það lendi í því aftur. Ef þið kíkið á linkana til vinstri er hægt að finna mynd af ósvikinni geimveru!!!

Sunday, December 2, 2007

Uppáhaldslagið!

Þetta lag er í uppáhaldi akkúrat núna, það er svo hugljúft og fallegt. Ég varð þó fyrir vonbrigðum með myndbandið því mér finnst það ekki nógu rómantískt!

Tuesday, November 27, 2007

Er jólin garðinn ganga í, gettu hvað mig fer að langa í....

Það er margt sem maður lætur sig dreyma um í skammdeginu og verkefnavinnunni í lok annarinnar. Jólin fara að koma og ég hlakka mikið til að eyða peningum í sjálfa mig og aðra:D
Ég plana að kaupa mér gullskó sem þessa...

...já þeir eru ótrúlega fallegir! Ekki má vanta jólakjólinn, ég vil ekki kattarkvikyndið finni mig og þessi frá Oscar de la Renta fer mér án efa óendanlega vel! Hvar getur maður verslað svona hátísku á Íslandi?


Stundum langar mig í bíl, sérstaklega þegar ég þarf að drösla mér í Laugar eldsnemma á morgnana í skítaveðri. Ég er ekki mikil bílamanneskja en Audi hefur mér alltaf þótt fallegur og þessi hér er líka svo fallega blár, ég mundi sko ekki slá hendinni á móti honum! Spurning um að tékka á 100% lánum hjá bönkunum...


Ég er að reyna að bæta mig í lestri, er orðin svo fjandi léleg í stafsetningu að það er sorglegt. Mér finnst líka yndislegt að lesa og það gæti verið nauðsynlegt fyrir mig að iðka það meira þar sem að SMÁÍS er á móti mér (tjah allavega vilja ekki að ég dl miklu hratt og örugglega!) OG þáttaskrifendur eru í verkfalli í Ameríkunni!! Ég er afar spennt fyrir þessari bók en tími reyndar ekki að kaupa hana fyrir jól því ég er að vona að hún felist í jólapakkanum, á íslensku eða ensku:D



Þar sem ég fæ fallegan glerskáp í jólagjöf þá vantar mig eitthvað fallegt inn í hann. Ég er einstaklega hrifin af öllu sem er litríkt eða er með glimmeri;) Þessi glös eru held ég bara fallegasti borðbúnaður sem ég hef augum litið. Sjáið hvað þau eru yndislega skrautleg þegar litunum er blandað svona saman! Held ég byrji að safna þeim barasta!
Nú er bara að vona að peningarnir fari að streyma óvænt inn á reikninginn minn...það væri þá ekki í fyrsta skipti;)

Monday, November 26, 2007

Babbidíbú



Brynhildur fjárfesti í forláta hlut í síðustu viku. Hann kostaði um 8 þúsund krónur og er glansandi fallegur, það var aðalsmerki lækna, nefnilega hlustunarpípa! Ég veit ekki hvort það sé hægt að kaupa sér nördalegri hlut..tjah jú nema náttúrulega veiðigalla í kamóflass;) Ég var hlustuð í bak og fyrir lungun og hjartað hljómar allt saman vel, hjúkket!




Ég fór í Ikea um helgina og verslaði fyrir fullt af peningum. Ekkert af því sem ég keypti vantaði mig en það skiptir ekki máli því gerfiþörfin var mikil. Mamma keypti jólagjöfina mína og Halla sem er hilla með glerhurð. Ég á hilluna en Halli hurðina en við megum því miður ekki setja stássið upp fyrr en 23 desember:( Það verður góður dagur og ég hlakka til að raða einhverju fallegu inn í skápinn.





Það styttist í jólin og það er bara vika eftir af skólanum! Þá byrja ég að vinna og verð að vinna flesta daga frá 6-13. Það er frekar ljúft að vera búin svona snemma í vinnunni og geta farið heim og bakað og tekið til og svona skemmtilegt:) Við Halli erum búin að panta far til Ísafjarðar 31. des og ætlum að vera þar eitthvað framyfir áramót sem verður án efa ljúft.

Um helgina fórum við Halli á rjúpnaveiðar hérna bara rétt utan við borgina (þó löglega langt í burtu held ég...). Við sáum ekki einn einasta fugl allan tímann þetta var síðasta helgi tímabilsins svo að Friðgeir verður einmana á jólaborðinu, étinn verður hann engu að síður! Þetta tímabil var líka bara svona æfing fyrir næsta þegar veitt verður ofan í alla fjölskylduna;)

Tuesday, November 13, 2007

Jólamaturinn Friðgeir

Jólamaturinn er kominn í hús, hvítur og fagur og ég kalla hann Friðgeir:) Á sunnudaginn varð Simmi lasinn svo ég keyrði með Halla út í óbyggðir vestfjarða. Við röltum dágóða stund í gegnum birkikjarr og leituðum að rjúpu til að skjóta og síðar éta. Eftir að hafa elt spor og fundið fullt af rjúpuskít náði Halli Friðgeiri. Ég stóð örlítið framan við hann og til hliðar (þá Halla en ekki Friðgeir) og var að horfa eitthvað allt annað þegar hann hleypit af. Margir vita að ekki er erfitt að bregða mér og við skothvellinn brá mér svo svakalega að ég fór næstum að skæla! Halli hitti og við urðum svo að leita að fengnum..það var hægara sagt en gert. Ég fann hann svo liggjandi í snjónum og þar sem hann var svo friðsæll ákvað ég að nefna hann Friðgeir, veit ekki alveg hvernig verður að éta mat með nafni á jólunum.
Það runnu á mig tvær grímur þegar skyttan tilkynnti mér að ég þyrfti að bera bráðina til byggða, lét mig þó hafa það og hélt í lappirnar og horfði með sorg á blóðið renna úr gogginum:S

Bílferðin heim frá Ísafirði tók 9 og hálfan tíma með 2 stuttum stoppum! Veðurguðirnir ákváðu nefnilega að sýna okkur smávegis af öllu versta veðri landsins, það var óneitanlega gleðilegt og líklega sérstaklega fyrir Simma sem sat með magapest í framsætinu.

Hér er mynd af frænda Friðgeirs svo þið getið gert ykkur í hugarlund hvað ég mun borða um jólin. Mamma, Brynhildur og Hjalti hún er tileinkuð ykkur því þið hafið ekki enn fengið rjúpu merkta ykkur og þess vegna líklegt að við pabbi gæðum okkur á gómsætri villibráð á meðan þið snæðið önd eða eitthvað annað alikjöt:D

Saturday, November 10, 2007

Hnífsdalur í máli og myndum

Ég er hrædd við Sæju, það er engin spurning, og tímalínan að renna út!!!

Í augnablikinu er ég stödd í stofunni á Bakkaveginum. Bakkavegurinn er í Hnífsdal. Hnífsdalur er á vestfjörðum. Hér er fallegt og rólegt og ég hef nýtt tímann og lesið svolítið í stjórnsýslu, nenni samt ekki meira núna og held ég glápi á imbann og prjóni það sem eftir er helgarinnar:D

Sumir segja að þetta sé fegursta útsýni Íslands, já og jafnvel heimsins! Ekki ætla ég að efast um það enda er sérlega fallegt að horfa yfir á Jökulfirðina og Hornstrandir:) Myndina tók ég reyndar í sumar en mig langaði bara svo að deila þessu með ykkur!






Í morgun fór ég út að leika með mágkonu minni, hún er hér fyrir neðan..
Halli og Simmi eru á veiðum. Í gær sáu þeir ekki neitt lifandi nema hvorn annan (og ekki ætla ég að éta þá í jólamatinn). Ég bind miklar vonir við daginn í dag, því það væri fátt jafn frábært og að gæða sér á rjúpu með pabba um jólin! Pabbi veiddi nefnilega eina síðustu helgi á 4 daga ferðalagi og hinir meðlimir fjölskyldunnar verða líklega að láta sér nægja önd eða svín eða einhvurskonar kjöt úr Hagkaupum.
Veiðimennirnir eru vel útbúnir og hér er langþráð mynd af kamóinu:
Það er fátt svalara en þessir tveir!;) Ætli það hafi samt ekki verið kamóið sem hræddi rjúpugreyin í burtu? Það fór eins og ég spáði, hér er snjór og gallinn er grænn! Núna er gaurinn sem seldi þeim gallana að hlægja sig máttlausa yfir kjánunum því hann hefur falið vetrarfelulitina inni á lager...

Monday, October 29, 2007

Meistari, Danir og jólarjúpan

Þessi maður er orðinn meistari og svarar nú engu nema "meistari Hafsteinn"! Hann útskrifaðist með sóma síðasta laugardag og var líka með glæsilega ræðu fyrir hönd útskriftarnema. Ég er bara nokkuð stolt af kallinum:) Hann fékk afar fallega Jesúklukku frá mér í útskriftargjöf og býst ég við að sjá hana á veggnum næst þegar ég kem í föðurhúsin.
Sjáið þetta fallega fólk. Þetta eru Nikolaj og Julie, þau eru dönsk og það er mikið drama í lífinu þeirra og lífi fólksins í kringum þau. Það er yndislegt!:) Ég varð nefnilega svo menningarleg í Danmörk að ég keypti mér alla þættina, og já þeir eru á dönsku. Það getur verið gott að hvíla sig aðeins á amerískunni þó ég hafi verið ansi glöð að það eru allavegana danskir textar á þáttunum.


Halli fór í stærstu verslunarferð lífs síns síðasta föstudag. Afraksturinn voru ljótustu föt sem ég hef séð á ævi minni, að meðtöldum öllum fötum 80's tímabilsins! Fötin eru ætluð til þess að gabba gæsir, rjúpur og aðra fugla sem verða svo óheppnir að verða á vegi hans og Simma þegar þeir fara á veiðar. Það sem þeir hugsuðu ekki út í er að það snjóar gjarnar uppi á fjöllum á Íslandi, það verður erfitt að fela sig í snjónum í dökkgrænum galla...
Ég á því miður ekki mynd af herlegheitunum en ég er viss um að Halli sé til í að fara í búninginn fyrir myndatöku. Myndin kemur því í vikunni;)

Friday, October 19, 2007

Nýtt áhugamál

Ég hef fengið nýtt áhugamál, það heitir Facebook og er yndislegt, heldur mér upptekinni í tíma:D Finnið mig á www.facebook.com og addið mér sem vini.

Í kvöld verður stelpukvöld með Soffíu, einhver yndisleg mynd og fullt af nammi, það verður ljúft:)
Á morgun verður svo ferðafundur, ég og Gulla og 2 vinkonur hennar sem ég þekki ekki en mun gera á sunnudaginn, erum að fara til Asíu eða Suður Ameríku eða bara Antartíku. Það verður semsagt ákveðið annað kvöld:)

Annars er maður bara að drukkna í lærdómi, en það er svosem ágætt líka. Verst að ég á svo mikið efni til að horfa á en hef engan tíma til að gera það! Desember verður bara þeim mun ljúfari:D

Wednesday, October 17, 2007

Danmörk og ónýtar pylsur

Já ég er komin frá landi bjórsins og búðanna:)
Í stuttu máli var mjög gaman!
-Sumir stálu hjóli
-Sumir villtust
-Sumir fóru til Kristjaníu í niðamyrkri og leiddu Gullu sér til hughreystingar
-Sumir eyddu fullt af pening
-Sumir fóru fullir á Istegade og keyptu undarleg kynlífsleikföng
-Sumum var boðið í nös á leið sinni á hótelið
-Sumir skruppu til Helsinki
-Sumir tóku ástfóstri við plasthengi á skemmtistað
-Sumir týndu jakka og síma í áður nefndri Helsinkiferð
-Sumir voru með langvarandi aulahroll

Það skal tekið fram að þessir sumir eru ekki allir ég!;)

Fjölskyldan í Fjenneslev var hress. Hjá þeim fékk ég gott að éta, lék mér mikið og tjillaði:)

Af fréttum í dag er það að ég át ónýta pylsu í morgun. Fann skrýtna lykt úr ísskápnum og henti fullt af gömlu dóti út úr honum. Fékk mér svo egg og pylsu í morgunmat (já mér finnst það gott!). Fattaði ekki fyrre n ég var búin með pylsuna að hún var sökudólgurinn að lyktinni:( Fæ örugglega brjálaða matareitrun!!

Keypti mér nýjan síma á þriðjudaginn og hann er nýja ástin mín:D fallegur og spilar fallega tónlist.

Steinunn Beinunn

Saturday, September 29, 2007

Tvífarar

Tók eftir því um daginn að Atli stóri bróðir og Sveinn Birkir ritstjóri Reykjavík Grapevine eru ansi líkir. Tékkið á þessu!

Sveinn er hægra megin og Atli til vinstri...

Já þeir eru líkir! Ætli ég eigi óskilgetinn bróður??

Monday, September 24, 2007

Trallalæ

Til þess að létta pressunni af Brynhildi og gera hana jafnvel glaða set ég hér inn mjög ljóta mynd af mér. Ég vil líka taka það fram fyrir þá sem hafa ekki séð Brynhildi að hún er venjulega mjög sæt og fín.Já svona getur maður verið sætur!:)

Ég tengdist netinu í skólanum í dag. Það var mjög gott og gaman, en kannski ekki snjallt. Var á msn allan tímann og náði illa að fylgjast með. Held ég þurfi bara að þróa þann hæfileika með mér að gera tvennt í einu.
Nú eru spennandi tímar framundan því allir þættirnir mínir eru að byrja aftur, yay! Og já svo fer ég til Danmerkur eftir viku:D Það verður ekki leiðinlegt að skoða aðstæður fatlaðra Dana, drekka bjór, versla og knúsa þessa litlu sætu skessu og bróður hennar:D

Thursday, September 20, 2007

Gleymdi mynd!

Gvöööð engin mynd með síðustu færslu! Set þá þessa inn "Bebi" systur áreiðanlega til mikillar gleði. Múhahaha!


Dugnaður í stelpunni

Já ég er sko dugleg í dag! Vaknaði 6 og fór að hlaupa með Halla, formataði tölvuna mína og er búin að lesa heilan helling fyrir skólann! Já og ég horfði líka á Dr Phil:)
Ég hlakka mikið til að fara með tölvuna mína á morgun og láta nettengja hana í skólanum, þá get ég skoðað alnetið og spjallað á msn í fyrirlestrum eins og allir hinir! Hver þarf að læra?!?

Bókin sem ég las í morgun heitir Gæfuspor eftir Gunnar Hersvein og er þvílíkur gleðigjafi. Hér eru nokkur "kvót" úr henni:
Um hreinskilni, full dramatískt fyrir minn smekk! "Hann (hinn heiðarlegi) kyssir þann sem hann elskar og afhjúpar ást sína án þess að hafa reiknað út viðbrögðin. Hann er einlægur. Koss bragðarefsins á hinn bóginn er eins og koss Júdasar, hann getur verið forboði dauðans. Enginn veit hvað kossinn merkir fyrr en eftir á."
Um hugarvíl, frekar dramatískt líka.. "Leggist á þungbúinn glugga sálarinnar og lýsið inn með vasaljósi skilningsins: Sjá! Kattaraugu leyndardómanna glitra enn."

Höfundinum finnst semsagt mjög gaman að skrifa dramatískar lýsingar, og er nánast allur textinn þannig að oft skellti ég uppúr við lesninguna:) Tek þó fram að margt sem hann segir "meikar sens" og er vert umhugsunarefni.

Wednesday, September 19, 2007

Þokki


Alltaf gaman þegar það eru myndir af manni á alnetinu. Þessa fann ég á síðu hjá lítilli skvísu sem ég sá um á Lyngási og í Fossvogsskóla, hún er með mér á myndinni:)
Klikkið á myndina til að sjá betur hversu glæsilega ég myndast.

Og já mér finnst gaman að setja inn myndir..bíðið bara þangað til ég læri að setja inn myndbönd!!!

Tuesday, September 18, 2007

Laugardagsmorgnar:)

Sjáið hvað hún er sæt! Einu sinni var gaman að vakna um helgar og horfa á Heiðu í fjöllunum.


Núna vakna ég um helgar og horfi á Meredith á spítalanum. Hún er ekki jafn sæt og Heiða, en margir vinir hennar komast allavegana nálægt því;)





Monday, September 17, 2007

Forritun barna.

Þessi maður gaf mér og bekkjarsystrum mínum nafnspjaldið sitt í Hafnarfirði um daginn. Hann sagði okkur að hann hefði fundið upp á bestu þroskaþjálfunaraðferðinni sem felst í forritun barna. Hann á börn sem hann hefur forritað og þau eru fluggáfuð. Ég skoðaði síðuna og hans og það er klárlega mikið vit í því sem hann hefur að segja. Hann sagði okkur þó að hann vildi ekki segja of mikið á síðunni svo fólk fari ekki að misnota þetta og búa til snillinga sem síðan nota snilli sína til að búa til hættuleg vopn. Skiljanlega.

Sunday, September 16, 2007

Glóðarauga

Já það er fátt svalara en að vera með sjáanlega marbletti eftir erfiðar æfingar. Ég var svo heppinn síðasta miðvikudag að fá hæl í andlitið á Jiu jitsu æfingu, hann fór rétt við augað á mér og ég vonaði sannarlega að fá glæsilegt glóðarauga sem ég gæti verið stolt af. Í staðinn fékk ég mar rétt fyrir neðan augað sem lítur út fyrir að vera maskaraklíningur og fólk hefur verið duglegt að segja mér að þurrka mér í framan.
Mér hefur samt sjaldan liðið jafn vel í ræktinni og núna. Alveg sérstaklega hörð með mar í andliti og á öxlunum að lyfta með öllum hinum buffunum;)
Hér sjáið þið dýrðina:

Betra

Jább þetta er nú betra!