Thursday, February 28, 2008

Jább ég sit hér uppi í Salaskóla og vafra aðeins á netinu eins og hver annar virðulegur þroskaþjálfi:) Verknámið er skemmtilegt og ég er núna á fullu að föndra við vinnuverkefni ætluð fyrir einhverfa nemendur, stuð og læti.

Á morgun er árshátíð Kennó og það verður vonandi gaman. Ég er að basla við að endursauma gamlan glimmerkjól af mér sem mun vonandi ganga, þá verð ég flottust á staðnum og allir í kringum mig glimmeraðir. Síðast þegar ég var í kjólnum var á árshátíðinni á öðru árinu í MH. Þá var Halli í forláta Boss ullarjakkafötum sem hann keypti á aðeins 500kr á fatamarkaði, ofurtöff. Þau hanga ennþá inni í skáp..kannski ég ætti að reyna að sníða þau til líka svo hægt sé að nota þau, þau eru nefnilega í sniði sem einkenndi áttunda áratuginn, sumsé ekki mér að skapi.

Hér erum við skötuhjúin úti að borða fyrir árshátíðina fyrir 6 árum!! Þeir sem ekki þekkja til gætu haldið að Halli sé blindur að lesa BRAIL en sú er ekki raunin, þetta var bara svona gott augnablik;)



Á laugardaginn er svo starfsmannapartý í Strýtuselinu. Það þýðir að ég mun í annað sinn á ævinni drekka tvo daga í röð! Sunnudagurinn verður því erfiður og fer líklega bara í sjónvarpsgláp og kósýheit, vííí:D

Wednesday, February 20, 2008

Hetja eða fífl?

Í ágúst mun ég leggja land undir fót og skella mér í bakpokaferðalag til Indónesíu. Nei maður er sko ekki að fara á einhverja sólarströnd í Evrópu þar sem ekkert gerist heldur á stórhættulegar slóðir flóðbylgjunnar miklu. Ég prófaði í gamni mínu að slá inn Indónesía í leitinni á mbl. Hörmunganiðurstöðurnar létu ekki á sér standa, jarðskjálftar með dauðsföllum síðast í dag, fuglaflensa (Indónesía er það land sem hefur farið verst í henni), flóðbylgja, aurskriður og útlendingar handteknir fyrir daður! Spurning hvort það sé fífldirfska að fara á slíkar slóðir...
Það eru reyndar líka góðar fréttir þaðan, ritstjóri indónesíska Playboy slapp við fangelsi, fyrrum einræðisherrar fá bætur frá Times tímaritinu og nýjar spendýrategundir hafa fundist þar;)

Hver veit nema ég hitti þessa dúdda?

Tuesday, February 19, 2008

Að borða ónýtan mat

Hér skrifaði ég um það þegar ég át ónýtar pylsur en það er alls ekki einsdæmi að ég borði ónýtan mat. Þegar ég bjó hjá mömmu og pabba var ég iðulega að borða eitthvað álegg á brauðið mitt þegar einhver fjölskyldumeðlimur gekk inn, opnaði ísskápinn, þefaði af sama áleggi og ég var að éta og henti því fullur viðbjóði. Ég get ekki fundið á lyktinni hvort matur sé ónýtur eða ekki. Einhverntíman sá ég í fræðsluþætti (á ruv auðvitað) að ónýtsmatarskyn væri innbyggt í manneskjuna!
Um daginn keypti ég 2 græna skyrdrykki. Fékk mér annan daginn eftir og fannst hann súr en ákvað að það vantaði bara bragðefnið í hann eins og hefur komið fyrir og sturtaði honum í mig. Skyrdrykk nr. 2 drakk ég nokkrum dögum seinna og var þess vegna aðeins skeptískari þegar ég smakkaði hann og hann var líka súr. Ég bað Halla að smakka drykkinn og hann sagði að hann væri í fínasta lagi. Mér fannst hann vondur en mér hefur oft fundist óskemmdur matur vondur svo ég píndi hann bara í mig.
Í gær keypti ég svo samskonar skyrdrykki. Þegar ég smakkaði þá voru þeir sætir og góðir og allt öðruvísi, ég þurfti ekki að pína þá oní mig heldur runnu þeir ljúflega niður. Það var þá sem ég áttaði mig á að hinir voru líkast til ónýtir. Ég sagði Halla frá því að ég hefði enn einu sinni étið skemmdan mat og þá fór hann að hlæja. Kom þá í ljós að hann laug að mér þegar hann smakkaði drykkinn, hann vildi sjá hvort ég mundi í alvörunni drekka ónýtt skyr!!

Thursday, February 14, 2008

Fésbók, tómur uppspuni?

Fésbók (Facebook upp á útlenskuna) býður upp á hin ýmsu próf sem geta sagt manni ýmislegt um mann. Ég fæ iðulega mikið af boðum í slík próf frá Fésbókarvinum mínum (reyndar aðallega Gullu þessa dagana sem gerir ekki annað en taka próf!) og ef prófið getur sagt til um eitthvað merkilegt, eins og t.d. hvaða Hollywood-koss ég sé, þá tek ég það.
Oft er prófið hræðilega nákvæmt, eða eins og kaninn orðar það "scarily accurate" (hversu nákvæmlega er samt hægt að finna út hvaða kynlífsleikfang maður er?? "já mér líður akkúrat eins og víbrador!").
Samkvæmt prófunum væri ég Ben Stiller ef ég væri stjarna, sveppir ef ég væri eiturlyf, ég giftist eftir 8 ár, ástarlíf mitt er eins og kvikmyndin "The princess bride", ég fell fyrir herramönnum (Halli hagaði sér eins og herramaður fyrstu 2 vikurnar) og ég gef frábæra "first impression". Ég ætla ekki að draga neitt af þessum niðurstöðum í efa enda svara ég alltaf af hreinskilni og fæ þar af leiðandi rétt svör....Þangað til í dag!

Twig
You're a twig! Now, you PROBABLY cheated on the quiz, but if not, you're like the healthiest person alive. You exercise, drink enough water, and eat right. Your friends are all also healthy, or they all rip on you for being a hippie vegan. Pass the mock jambalaya, please.

Ég svindlaði ekki á prófinu, ég geri það aldrei, en þeir sem mig þekkja vita að ég er ekki eins og sprek og er langt frá því að vera ofurheilbrigð...! Þetta fær mig til að efast um spádóma Fésbókarinnar, hvernig á maður að treysta henni eftir þetta?!?

Tuesday, February 12, 2008

Hrmpf!

Jútjúb var ekki í samvinnuþýðu skapi í dag. Ég var búin að velja myndband við yndislegt lag og ætlaði að deila með ykkur, skrifaði meiraðsegja mjög skemmtilega færslu með um tónblindni Halla og ást mína á Coldplay, en ekki birtist það á blogginu. Svekk...

Ég er búin að vera óvenju menningarleg síðustu daga. Er búin að fara 3 sinnum í bíó á ca 2 vikum og er á leiðinni í leikhús á fimmtudaginn.
Ég sá myndina Brúðguminn og hún er mjög skemmtileg, mæli með henni, sá svo Atonement og hún er líka góð, er núna að vinna í bókinni, og um helgina sá ég hálftíma af Býflugnamyndinni (í vinnunni), hún var ekki að mínu skapi og fólkinu sem ég var með leiddist, var búið með nammið og farið að ókyrrast svo mikið að við urðum að fara;)
Á fimmtudaginn fer ég með 3 vinkonum og einni systur á Baðstofuna eftir Hugleik. Geri ráð fyrir góðri skemmtun þar:D

Kannski kemur fallega lagið hér inn seinna, bíðið spennt!

Saturday, February 9, 2008

Ég ætla að verða froskur þega ég verð stór!

Skondin saga af litla skrímslinu mínu henni Önnu Petreu:

Brynhildur situr inni í herbergi að lesa einhverja skemmtilega anatómíubók eins og vanalega.

Anna: Afhverju ertu að lesa?
Brynhildur: Svo ég geti orðið læknir.
Anna: Jaá, maður þarf líka að lesa til að verða froskur...
Brynhildur: Ha? Hver ætlar að verða froskur??
Anna: Steinunn!

Já þar hafið þið það! Ég er að lesa bækur til þess að verða froskur, það er göfugt verkefni;) Reyndar er ekki skrítið að það hafi eitthvað skolast til þegar ég sagði henni að ég ætlaði að verða þroskaþjálfi og atferlisfræðingur, ekkert einföld orð svosem. Er bara ánægð með að hún mundi nokkra stafi:) Ekki bætti heldur úr skák þegar systkinaómyndir mínar fóru að rugla með froskaþjálfa og froskabjálfa...aldrei er gert grín að lækninum, hún er bara beðin að lækna! Hvenær má ég þroskaþjálfa fólkið mitt??
Ef ég verð froskur verð ég allavega konunglegur froskur!

Tuesday, February 5, 2008

Dagurinn hefur verið niðurnegldur - The date has been set!

Já það er ljóst, stóri dagurinn nálgast óðfluga. Takið frá 4. febrúar 2016 því þá mun ég gifta mig. Það segir Andlitsbókin (Feisbúkk) allavega og ekki ætla ég að véfengja þann áreiðanlega miðil;)
Nú þarf ég bara að byrja að skipuleggja, finna hinn fullkomna kjól o.s.frv.!
Ætli ég geti fundið eitthvað test sem segir mér hvenær ég mun eignast börn og flytjast í úthverfi?

Monday, February 4, 2008

Slumberpartý

Litlu fósturdætur mínar gistu saman hjá mér um helgina. Það var mikið stuð og voða gaman:)
Hér eru nokkrar myndir af þeim stöllum:

Hnoðast í rúminu og horft á Skoppu og Skrítlu fyrir svefninn
Steinsofnaðar eftir að haf hlustað á söguna um Búkollu:)
Baðaðar, klæddar og greiddar alveg eins að bíða eftir því að komast út.

Eftir þetta partý varð mér ljóst að líklega væri best að eignast tvíbura þegar að því kemur. Við þurftum lítið sem ekkert að hafa fyrir stúlkunum, þær léku sér nánast áfallalaust saman:D

Strætó

Þeir eru heppnir sem fá að ferðast reglulega með strætó. Ég er ein af þeim hópi. Í strætó fær maður að sjá allt skemmtilegasta fólk samfélagsins og þar hef ég orðið vitni að ýmsu skemmtilegu, og það gerist gjarnan þegar ég tek strætó með Sæju minni.
Fyrir sirka ári fórum við út að borða með bekknum niðrí bæ og síðan var förinni heitið í partý í Breiðholtinu. Huggulegu bekkjarfélagar okkar skildu okkur bíllausu aumingjana eftir og við urðum að taka strætó. Það reyndist þó hin mesta skemmtiferð. Létthífaðar skemmtum við okkur nefnilega konunglega yfir 2 mönnum sem voru að kjafta ókunna gamla konu í kaf um sveitafólk og skyldmenni sem hún vissi ekkert um, ég man því miður ekki alveg hvað þeir sögðu svo að þetta verður að vera svona "góð saga";)
Í síðustu viku ákváðum við að gera okkur dagamun með því að taka strætó í Bónus úti á nesi. Á leiðinni til bara sátum við sitthvorumegin við ganginn og fyrir aftan Sæju sat maður og talaði við sjálfan sig. Þegar komu pásur í samræðurnar hjá honum smellti hann fölsku tönnunum út úr sér og lék við þær með tungunni, yndislegt alveg hreint og það kostaði þó nokkur átök að kæfa hláturinn!
Við tókum svo strætó í dag í Mál og Menningu á Laugaveginum til þess að kaupa okkur lesefni og á leiðinni heim sátu 2 ungar stúlkur rétt hjá okkur. Þær brustu í söng á miðri leið og skemmtu okkur og öðrum með rödduðu lagi úr Aladdín.
Það er reyndar ekki í fyrsta sinn sem fólk brestur í söng með mér í strætó, ung stúlka tók Úlfasönginn úr Ronju ræningjadóttur með mikilli tilfinningu og fékk klapp fyrir frá öllum farþegunum;)
Það má kannski líka minnast á að einhverntíman var ég í strætó ásamt fjórum öðrum farþegum og allir virtust að minnsta kosti vera heimilislaust ógæfu fólk nema ég, hvað segir það manni?