Sunday, June 29, 2008

dúbbídú

Núna er ég útskrifuð, orðin "Steinunn Hafsteinsdóttir með BA gráðu í þroskaþjálfun". Það eina sem stendur nú í vegi fyrir framúrskarandi faglegheitum og eilítið hærri launum er starfsleifið sem ætti að vera á leiðinni með póstinum:) Það er nefnilega ekki nóg að klára 90 einingar og fá skjal frá skólanum þar sem stendur að ég hafi lokið náminu, ónei ekki svo gott! Ég þurfti að fara á lögreglustöðina og fá staðfest ljósrit af plagginu (svona svo ég mundi ekki falsa það) og síðan alla leið út á Seltjarnarnes til landlæknis svo hann gæti stimplað það fyrir mig. Það að fá manninn til að lyfta hendinni kostar litlar 5500 krónur, það væri ekki amalegt að vera á slíku kaupi, en mín hendi er náttúrulega ekki jafn merkileg og hans og tími minn klárlega ekki jafn mikilvægur! (..smá biturleiki óvart!)
London var yndisleg, við skemmtum okkur mjög vel stöllurnar:) Það er svo langt síðan að við komum heim að ég man ekkert hvað við gerðum...en ég á nokkuð mikið fleiri föt en áður en ég fór og debetkortið er mun þynnra;)
Þessa helgi hafa Rósa og Jóhanna búið með mér því Halli fór til Parísar á Blizzardráðstefnu (Nördaþing). Sambúðin hefur gengið mjög vel, Rósu virðist líka vel við mig (já Rósa er hundur) og við kúrum allar saman á næturnar.
Sumarið leggst vel í mig, það flýgur reyndar hjá aðeins of hratt! Stefni á eitthvað ferðalag næstu helgi eins og margir aðrir...vona að veðrið verði gott, mjög týpískt samt að akkúrat þá fari að rigna!

Tuesday, June 3, 2008

OÓ!

Ísbjörn á landinu! Þetta hef ég óttast síðan ég var ca 6 ára og sá Nonna og Manna í fyrsta sinn. Þá varð ég svo hrædd að ég skipti um kojupláss við Brynhildi og fékk að sofa uppi svo ísbjörninn gæti ekki náð mér (ef svo líklega vildi til að hann væri á vappi um suðurlandsundirlendið og rataði akkúrat inn í okkar hús og upp í herbergi okkar systra!).
Eins gott að ég er að fara af landi brott í fyrramálið, vona að skepnan nái ekki til Reykjavíkur í dag!


Næst þegar ég fer í Húsdýragarðinn reikna ég með að sjá björninn, það er ábyggilega fínt að skella honum bara í selatjörnina!;)

Monday, June 2, 2008

Hættuför?

Hér bloggaði ég um fyrirhugaða hættuför til Indónesíu. Ég er núna hætt við þá ferð, ekki vegna hræðslu við flóðbylgjur eða fuglaflensu heldur vegna peninga og tímaskorts.

Á miðvikudaginn fer ég hinsvegar til London í 5 daga skemmtiferð og ég er farin að halda að sú ferð sé öllu hættulegri en þessi til Indónesíu. Ég sló London inn í leitina á mbl.is og komst að því á undanförum vikum hafa verið þónokkrar hnífsstunguárásir í borginni sem sumar hafa endað með láti, sprengingar, kröftug mótmæli, bann við myndum af Venusi (vegna nektar hennar) og áfengi í subway kerfinu, tölvubilun á Heathrow (þar sem ég kem til með að lenda), flugslys og fleira.

Það er ljóst að ég, Sæja og Jóa erum miklar hetjur að þora að stíga fæti inn í þessa Sódómu og eins gott að ég verði orðin hitalaus þá (já er veik *grenjvorkenniðmérgrenj*) því ég þarf alla mína krafta til að berjast við óaldarlýðinn sem mun líklega verða á vegi okkar!!
Hér er ég í fyrri Londonferðum mínum, lifði þær af þótt ótrúlegt sé!!;)