Thursday, January 24, 2008

Wii olnbogi

Ég fór til Óla og Soffíu í gær og þar fórum við í ýmsa leiki eins og hafnabolta, box, tennis og keilu. Að sjálfsögðu vorum við ekki að leika okkur í alvörunni enda er það ótrúlega hallærislegt! Við erum svöl og lékum okkur í nýja dótinu hans Óla, Nintendo Wii.
Ég var afspyrnu léleg í öllum leikjum og tapaði með glæsibrag. Það vantaði þó alls ekki upp á keppnisskapið og ég sveiflaði höndunum eins og geðsjúklingur í veikri von um sigur. Í dag er öxlin mín og olnboginn á hægri hendi að súpa seyðið af ólátunum því ég er öll aum og ekki frá því að harðsperrur séu á leiðinni.
Ég sá svo þessa síðu. Ég er ein af lúðunum sem finnur fyrir einkennum eftir tölvuleikjaspilun...ekki svalt!

Ég fékk líka að kenna á því að hafa verið í einu fjölskyldunni í sveitinni sem ekki átti nintendo tölvu fyrir 13-15 árum. Við Soffía fórum nefnilega í Super Mario og ég er ömurleg í þeim leik, gat ekki einu sinni stjórnað kallinum almennilega. Frekar lélegt að geta ekki klárað borð í leik sem ætlaður er litlum krökkum...
Soffía vægast sagt rústaði mér enda er hún með límheila sem minnir á undarlega sérvitringa og mundi náttúrulega öll "múvin" síðan hún var átta ára!!!


Wednesday, January 23, 2008

Glansandi byssur

Það er ekkert slor að vera að æfa í Laugum. Öll tæki og tól eru prýðileg og sturturnar fínar. Í síðustu viku áttaði ég mig á hvers vegna það er dýrara að æfa þar heldur en í baðhúsinu því sjálfur Jói Fel var við hliðina á mér að "vörka" byssurnar! Ég náttúrulega gapti af gleði og undrun og gjóaði augunum að honum í speglinum. Hann var sveittur og það stirndi á hrausta húðina. Hárið var vatns (eða svita) greitt aftur, já flottur var hann. Hraustleikinn er greinilega í ættinni því við Jói erum þremenningar og þessvegna náskyld!!
Ég veit að Særún og allar hennar vinkonur öfunda mig af því að fá að berja manninn augum í ræktinni...kannski þið ættuð að skella ykkur í Laugar og láta tjéllinguna í Baðhúsinu eiga sig?!

Friday, January 18, 2008

Lati Geiri á lækjarbakka lá þar til hann dó...

Það er erfitt að vera í fríi. Í dag hefur lítið verið um athafnagleði hjá mér og ég hef að mestu legið uppi í sófa. Ég sinnti að vísu Arneyju í 2 og hálfan tíma og rölti svo aðeins út með Sæju, en eftir að ég kom aftur heim um 1 leitið ca. er ég ekkert búin að gera!! Ég lagðist upp í sófa og þar hef ég verið að lesa blogg ókunnugrar konu. Ég er búin að þurfa að pissa í meira en klukkutíma og mér er líka ískalt en ekki nenni ég að standa upp. Vona að ég drullist framúr á einhverjum tímapunkti...
Ef ég svara ekki á msn og ekki í símann þá er ég líklega dauð úr kulda eða sprunginni þvagblöðru!!!

Tónlist

Jæja komið nú með einhverjar góðar hugmyndir að tónlist og sjónvarpsefni! Mig vantar þær:D


Tuesday, January 15, 2008

Óheppin?

Það getur haft sína ókosti að eiga ástmann sem er að læra sjúkraþjálfun. Það kom í ljós að hálsnuddið var ekki bara svona eitthvað kósý dæmi og að "hálsinn" nær lengst niður á bak! Halli nuddaði mig í tætlur á meðan ég öskraði og reyndi að vera kyrr á meðan ég kvaldist. Ég get ekki annað en hugsað með vorkunn til sjúklingsins sem fær þessa meðferð hjá honum í dag á Reykjalundi...

Monday, January 14, 2008

Heppin

Það hefur sína kosti að eiga ástmann sem er að læra sjúkraþjálfun. Hann er núna í verknámi og sinnir allskonar sjúklingum. Þegar hann kom heim í dag sagði hann "hey ég verð svo að fá að nudda á þér hálsinn á eftir til þess að æfa mig fyrir morgundaginn!"...ég náttúrulega fórna tíma mínum til þess að aðstoða hann við námið!;)

Heimavinnandi húsmóðir

Þessa vikuna fæ ég að prófa hið ljúfa líf heimavinnandi húsmóðurinnar. Þetta krútt var hjá mér í dag og verður eitthvað næstu daga á meðan móðir hennar menntar sig:) Dagurinn var nokkuð góður. Arney var samvinnuþýð og svaf heila 3 tíma samtals og á meðan gat ég horft á sjónvarpið, sem er að sjálfsögðu stór hluti af lífi húsmæðra! Við lékum okkur líka svolítið með bolta og bangsa sem var hressandi.
Ég var líka heppin því sú stutta vildi ekki matinn sinn og skildi því eftir gómsætt epla og plómumauk sem ég borðaði með bestu lyst yfir góðum sjónvarpsþætti:D


Ég hef ekkert að segja um þessa mynd en hún er bara svo ótrúlega flott að ég varð að skella henni á alnetið!!!;)

Sunday, January 13, 2008

Megastuð

Tékkið á þessum leik! Hann er mjög súr enda gerður af Japönum og hann er líka erfiður. Reyndar svo erfiður að eftir nokkra klukkutíma gúgluðum við Halli honum til þess að finna lausnina. Endilega spreytið ykkur!

Wednesday, January 9, 2008

Ársuppgjör

Ég hef tekið eftir því að flestir bloggarar sem ég les gera svona ársuppgjör um áramótin. Það hef ég ákveðið að gera líka:D

- Árið 2007 byrjaði á því að pabbi fór til Finnlands í mastersnám og þar var hann fram á sumar. Mamma fylgdi honum í apríl og það var skrítið að vera munaðarlaus, gott samt að hafa mikinn og góðan aðgang að bíl;)
- Ég byrjaði í nýrri vinnu í janúar, í Strýtuseli sem er nýtt heimili fyrir einhverfa stráka. Þar er frábært að vinna en þetta fyrsta ár heimilisins var mjög erfitt, við höfðum í allt 7 yfirmenn og á tímabili var ég ákveðin í að hætta. Það leið þó hjá og núna er ég ánægð.
- Soffía og Óli eignuðust Arneyju Vöku í mars, dúllumús númer 2.
- Ég fór í vettvangsnám í Öskjuhlíðarskóla sem var ágætt. Þar sannfærðist ég um ágæti sérskóla en sá að mig langaði ekki sérstaklega að vinna þar sjálf.
- Í maí vann ég í Salaskóla sem gangavörður, forfallakennari og dægradvalarstarfsmaður. Ég get með sanni sagt að gangavarðarstarfið er það leiðinlegasta sem ég hef nokkurn tíman gert! Dagarnir liðu hægt og skúringar eiga illa við mig.
- Í maí fórum við Halli líka til Helsinki að heimsækja mömmu og pabba og það var ótrúlega skemmtilegt. Eurovision var akkúrat þá helgi sem við komum og við upplifðum mikið af fólki og júróvisjón þorpið fræga sem var ekki svo merkilegt. Við fórum líka til Tallinn í Eistlandi og sú borg er æðisleg. Það var mikið verslað, étið og skoðað:)
- Á meðan við vorum úti fluttu Atli, Heidi og börnin til Danmerkur og það fannst mér leiðinlegt, ég hef saknað þeirra síðan:( Það góða er að nú er alltaf afsökun til þess að fara til útlanda!
- Í sumar vann ég í sumardagvist fyrir einhverf börn í Fossvogsskóla með 3 yndislegum bekkjarsystrum mínum og 4 öðrum frábærum krökkum. Við skemmtum okkur konunglega í allskonar leikjum og fíflagangi í allt sumar. Það gerðist líka í sumar að Halli fékk sundlaugarvarðarpróf! Það er mjög merkilegt þar sem að hann er vatnshræddur og frekar illa syndur. Við tókum nokkrar sundæfingar fyrir prófið þar sem hann æfði sig í björgunarsundi og köfun og hann stóðst síðan prófið:)
- Í ágúst fórum við Halli til Krítar í viku. Þar lágum við á ströndinni, sváfum og borðuðum. Það gerðist lítið markvert en það var samt ótrúlega næs ferð:)
- 2 dögum eftir að ég kom heim frá Krít fórum við Brynhildur til Fjenneslev og síðan Kaupmannahafnar. Við lékum okkur mikið við frændsystkinin, drukkum bjór og tjilluðum með stórabróður og mágkonu:) Í Köben fórum við á allskona hlaðborð frá öllum heimshlutum og versluðum ógrynni af fötum. Við skoðuðum líka smá, kíktum í tívolí til dæmis.
- Skólinn byrjaði svo aftur og þetta var skemmtileg önn með milljón verkefnum sem gengu bara prýðilega.
- Ég átti afmæli og varð 23...það er alveg doldið mikið, bara 12 ár í að ég verði fullorðin!
- Í október fór ég í fjórðu utanlandsferðina mína á árinu! (fátækir námsmenn hvað??). Bekkurinn fór saman í ferð til Kaupmannahafnar að skoða nokkra staði sem þjónusta fatlaða og drekka öl og versla og skemmta sér.
- Ég man ekkert markvert sem gerðist í nóvember! Hmm eða jú við veiddum Friðgeir rjúpuna frægu!
- Í lok ársins vann ég mikið því við vorum búin mjög snemma í skólanum, eða 4. des.. Í desember gerðist líka sá sorglegi atburður að litli frændi minn, Högni (18 ára) lést eftir nokkurra mánaða baráttu við krabbamein. Jarðarförin hans var vikuna fyrir jól og var einstaklega falleg en setti undarlegan svip á jólaundirbúninginn:(
Birna útskrifaðist líka loksins í desember og er þar með orðin stúdent! Það var partý með fullt af bollu sem rann ljúflega niður en ég var samt eitthvað óþarflega skynsöm og fór ekkert niður í bæ eða neitt. Til hamingju Birna!!

Jáh þá er árið komið, eða svona það markverða sem ég man! 2008 lofar góðu, ég mun útskrifast, finna mér vinnu og fara í eitthvað gott ferðalag með Gullu og öðrum hressum stelpum:)

Wednesday, January 2, 2008

Jólin

Jólin hafa verið einstaklega góð í ár, enda hef ég verið í þokkalegu fríi frá vinnunni og bara slappað vel af:) Ég fékk marga fallega pakka en sá sem stendur sérstaklega upp úr eru ótrúlega fallegir hælaskór sem Halli gaf mér! Hann kom mér ekkert smá á óvart;) Við borðuðum Friðgeir annan í jólum og hann var ljúffengur, stóð vel undir væntingum.
Núna sit ég í stofunni á Hnífsdal en hér vorum við yfir áramótin. Það leit reyndar ekki út fyrir að við mundum komast vegna veðurs en það var sem betur fer flogið á mánudagsmorguninn. Flugið var hinsvegar það versta sem við höfum lent í hingað til, mikil ókyrrð og fólk farið að taka upp ælupokana. Við þurftum svo að taka hring í mestu ókyrrðinni vegna éls sem gekk akkúrat yfir Ísafjörð þegar átti að lenda. Sem betur fer ældi enginn því líklega hefðu þá allir ælt, ég er fegin að hafa sloppið við þá reynslu;)
Við erum búin að hafa það afar notalegt hér, höfum spilað mikið, borðað mikið, sofið mikið og horft mikið á sjónvarp. Þess á milli höfum við leikið okkur aðeins við Guðrúnu Helgu mágkonu:)

Gleðilegt ár!