Sunday, March 23, 2008

Töfrateningurinn


Halli fékk töfratening í afmælisgjöf og tók áskoruninni heilshugar. Við fundum formúlur á netinu til þess að leysa hann og ég fór og keypti mér tening líka svo ekki kæmi til upplausnar í sambúðinni. Við sátum svo góða kvöldstund við sitthvora tölvuna og börðumst við kubbana. Halli var heldur fljótari en ég og hjálpaði mér svo að skilja þetta dæmi, því þó maður hafi formúlurnar er þetta engin kökusneið! Við höfum núna bæði leyst teningana okkar, ég nokkrum sinnum en Halli örugglega hundrað sinnum! Hann er búinn að læra utan að allskonar formúlur sem innihalda "milljón" hreyfingar og getur nú gert þetta allt saman án tæknilegrar hjálpar, nokkuð gott verð ég að segja. Þess má geta að þessi utanbókarlærdómur tók u.þ.b. 48 klukkustundir þar sem fátt annað komst að, ekki einu sinni Team fortress!
Gestir og gangandi hafa líka fengið að njóta góðs af þessari frábæru gjöf, en Gulla og Jóhanna spreyttu sig eitt kvöldið við að leysa dæmið með dyggri hjálp Halla:)
Næsta skref er að sjálfsögðu keppni í lausn töfrateningsins og Halli er nú þegar byrjaður að æfa sig að nálgast heimsmetið sem eru 11sekúndur...

Páskarnir

Við erum í vellystingum á Hnífsdal. Hér er ennþá hávetur, allt á kafi í snjó og frekar kalt. Við skelltum okkur á gönguskíði í sólinni á föstudaginn og það var prýðilegt, fórum samt bara 3 frekar litla hringi því skíðaganga er erfiðari en hún virðist! Í gær kíktum við á Aldrei fór ég suður og þar var svo ótrúlega stappað að það var ekki verandi þar alls ódrukkinn, við stoppuðum því stutt og fórum bara heim í náttföt að spila:D
Í dag var það svo baráttan við páskaeggið. Ég byrjaði snemma að vinna í því en á tímabili var tvísýnt um hvort okkar kæmist lífs af, ég eða eggið. Ég hafði það þó undir og nú liggja síðustu sönnunargögnin um það gjörsigruð í skál við hliðina á mér.
Nú erum við á leiðinni í mat til stjúptengdafjölskyldu minnar og ætli kvöldið endi ekki á nammiáti og spilamennsku, ansi ljúft líf:)

Monday, March 17, 2008

Að koma sér hjá því að læra

Það er mikið að gera í skólanum á þessari önn, lokaverkefni, verknám með tilheyrandi verkefnum og svo einn leiðindaáfangi sem ég geri mér ekki alveg grein fyrir um hvað fjallar en honum fylgir frekar tilgangslaust og tímafrekt verkefni. Ég tel mig vinna best undir pressu og hef því ekki mikið byrjað á verkefnunum nema lokaverkefninu, ákvað að ég myndi byrja af alvöru í páskafríinu. Nú er páskafríið byrjað, 3 dagar liðnir og ekkert hefur gerst. Ég ætlaði að vera ofurmannlega dugleg í dag og klára að minnsta kosti eitt verkefni.
Það sem ég hef gert fram að þessu er:
-Halaði niður James Blunt diski og hlustaði á (ætlaði sko að byrja að skrifa þegar hann væri búinn)
-Skoðaði hálft alnetið (ætlaði bara að skoða eina síðu enn og svo byrja að skrifa)
-Lagði mig (var of þreytt til að skrifa og það mundi örugglega ganga betur eftir smá lúr)
-Hannaði föt sem ég ætla að sauma í huganum
-Fór í bað (er svo illt í hálsinum eftir slagsmál helgarinnar (í vinnunni sko) og var viss um að heitt bað mundi laga það)
-Drakk stóran bolla af kaffi (hann mundi örugglega skerpa einbeitinguna)
-Vaskaði upp (ég get ekki lært í drasli)
-Sendi BN meil
-Setti í 2 vélar og hengdi upp
-Skoðaði alnetið aðeins betur og blogga snöggvast
-Planaði hvað ég ætla að gera við afganginn af deginum þegar ég verð búin að læra
Núna er ég á leiðinni að endurskipuleggja eldhúsið því Halli fékk sodastream tæki í afmælisgjöf og það þarf að búa til pláss fyrir það. Bráðnauðsynlegt að gera það akkúrat núna og ekki seinna!

Þetta er sumsé afkastamikill dagur í öllu öðru en lærdómi. Það hlýtur samt að reddast eins og venjulega...

Wednesday, March 12, 2008

Halli og tölvan

Halli keypti sér ný heyrnartól í vikunni, ofursvöl með "mæk" og öllu. Á sama tíma uppgötvaði hann einhvern fallegan leik þar sem hann á að drepa óvini með stórri byssu eða handsprengjum, þennan leik spilar hann með Simma og Óla og einhverjum útlendingum. Ég spurði hann í fyrrakvöld hvort hann vildi ekki fara út og hitta einhvern (var með samviskubit yfir að skilja hann einan eftir heima fimmta kvöldið í röð), þá benti hann á skjáinn og sagði "ég er með strákunum!", gott og blessað. Í tölvuleiknum talar hann líka við strákana, ekki bara með því að skrifa heldur með því að tala í nýja "mækinn". Ég hrekk iðulega við þegar setningar eins og "soldier in your base", "ég er á leiðinni!" og styttingarnar lol og gg glymja yfir stofuna! (ok setningarnar eru einhverjar aðrar en ég man þær aldrei, bjó því til eitthvað sem hljómar svipað).
Ætti ég að hafa áhyggjur?

Coldplay - The Scientist

Ahh fallegt lag, fallegt myndband og fallegur maður! Njótið:)

Thursday, March 6, 2008

Þjófur í Bólstaðarhlíð?

Síðasta helgi var mikið stuð. Við vinkonurnar skemmtum okkur konunglega á árshátíðinni sem og allur Kennaraháskólinn held ég bara! Við rifjuðum það upp á sunnudaginn að Geir Ólafs kom og skemmti mannskapnum í boði bóksölunnar, Gulla henti í hann rusli...
Á laugardeginum var starfsmannadjamm sem byrjaði á Sægreifanum. Heilsa mín var ekki sem best og þess vegna ákvað ég að ég skyldi bara fara snemma heim og taka því rólega. Nú þegar ég mætti svo á staðinn og hitti skemmtilega samstarfsfólk mitt gat ég ekki staðist það að skemmta mér með þeim;) Við fórum á Hjálma á Nasa og ég skemmti mér svo vel að ég man ekki eftir að hafa séð eða heyrt hljómsveit spila, man þó vel eftir að hafa kjaftað, dansað og fíflast:)
Ég var svo vitlaus að taka strætókortið með í bæinn og á mánudaginn þegar ég ætlaði að nota það var það horfið og bókasafnskortið mitt líka. Ég leitaði út um allt og fann svo í gær bókasafnskortið á stéttinni hér fyrir utan. Ég er nokkuð viss um að það ásamt strætókortinu hafi dottið úr þegar ég kom heim í leigubílnum. Nú hef ég hringt út um allt og vonað að skilvís (asnalegt orð...) finnandi mundi skila kortinu á einhvern góðan stað. Svo er ekki:( Ég þarf því að punga út 12.500kr fyrir rauða kortinu, alveg ömurlegt!

Það sem er þó merkilegt er að ég var með budduna mína með kortunum, lyklunum, verkjatöflum og glossi bara á lausu, ekki í neinni tösku og ég týndi henni ekki!! Manni fer fram...

Læt hér fylgja mynd frá árshátíðinni í boði Særúnar. Það var minnir mig enginn með myndavél á laugardeginum, sem betur fer held ég bara.

Tuesday, March 4, 2008

Halli á skautum, múhahaha


Ég get ekki verið þekkt fyrir að hafa svona væmna færslu efst. Því set ég þessa mynd hér. Alltaf gaman að hlægja á kostnað annara:D

Sunday, March 2, 2008

7 ár!

Jább 7 ár er þokkalegt. Sjáið þið hvað við erum falleg og sæt? Ansi vanaföst líka því ég er hægra megin við Halla á öllum myndunum nema síðustu!;)